Erlent

Pompeo frestar ferð til Úkraínu vegna á­taka í Írak

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Pompeo hætti við ferð sína til Úkraínu vegna árásar á sendiráð Bandaríkjanna í Írak.
Pompeo hætti við ferð sína til Úkraínu vegna árásar á sendiráð Bandaríkjanna í Írak. getty/Alex Wong

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ákveðið að fresta ferð sinni til Úkraínu og fjögurra annarra ríkja vegna árásar sem gerð var á sendiráð Bandaríkjanna í Bagdad í Írak. Frá þessu er greint á vef fréttastofu AP.

Pompeo átti að koma til Úkraínu seint á morgun í fyrstu heimsókn sinni til landsins en þar á eftir átti hann að fara til Hvíta-Rússlands, Kasakstan, Úsbekistan og Kýpur.

Hann frestaði ferðinni til að geta fylgst með aðstæðunum í Írak eftir að vígamenn, sem sagðir eru studdir af stjórnvöldin í Íran,réðust á sendiráð Bandaríkjanna og til að tryggja öryggi Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum. Þetta kom fram í tilkynningu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu í dag. Þar sagði að fundinn yrði nýr tími fyrir heimsóknirnar eins fljótt og hægt er.

Volodymyr Zelenskiy, forseti Úkraínu.getty/Sean Gallup

Vígamennirnir yfirgáfu sendiráð Bandaríkjanna í Bagdad í dag eftir að hafa haldið þar til í tvo daga og tekist á við bandarískar öryggissveitir. Bandaríkin sendu hundraði auka hermanna til Mið-Austurlanda til að auka öryggi á svæðinu eftir árásina.

Pompeo átti að hitta úkraínska forsetann, Volodymyr Zelenskiy í Kænugarði. Símtal Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, og Zelenskiy sem vakti mikla reiði varð til þess að bandaríska þingið hóf rannsókn á málinu sem varð til þess að Trump var ákærður fyrir embættisbrot.

Í símtalinu þrýsti Trump á Zelenskiy að rannsaka mögulegan mótherja Trumps í forsetakosningunum 2020, Joe Biden, og son hans Hunter og þá kenningu, sem nú hefur verið afsönnuð, að Demókratar hafi með hjálp Úkraínu reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016.

Pompeo ætlaði líka að hitta trúarleiðtoga, viðskiptamenn og sveitarstjórnarmenn til að ræða mannréttindi, fjárfestingar og umbætur í stjórnmálum og efnahagsmálum.


Tengdar fréttir

Reyndu að fá Trump til að skipta um skoðun á Úkraínu

Ákvörðun Trump forseta um að stöðva aðstoð til Úkraínu olli titringi og togstreitu innan ríkisstjórnar hans í sumar og haust. Tveir ráðherrar og þjóðaröryggisráðgjafi reyndu að tala um fyrir honum en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×