Erlent

Mótmæli í Kænugarði þegar fangaskipti fóru fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Úkraínumaður faðmar ástvin eftir að honum var sleppt í gær. Fangaskiptin fóru fram í borginni Horvlika í Donetsk-héraði.
Úkraínumaður faðmar ástvin eftir að honum var sleppt í gær. Fangaskiptin fóru fram í borginni Horvlika í Donetsk-héraði. Vísir/EPA

Úkraínsk stjórnvöld og uppreisnarmenn hliðhollir Rússum í austanverðu landinu skiptust á 200 föngum í gær. Samið var um skiptin í viðræðum rússneskra og úkraínskra stjórnvalda sem fóru fram fyrr í þessum mánuði. Lausn uppreisnarmanna var mótmælt í höfuðborginni Kænugarði.

Uppreisnarmenn afhentu úkraínskum stjórnvöldum 76 fanga og á móti skiluðu þau 124 uppreisnarmönnum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Volodýmýr Zelenskíj, forseti Úkraínu, segir að alls hafi 81 úkraínskum fanga verið sleppt.

Átökin í austanverðri Úkraínu hófust í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Um 13.000 manns hafa fallið í átökunum á milli úkraínska stjórnarhersins og uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Rússa.

Ekki voru allir sáttir við fangaskiptin nú. Aðgerðasinnar lokuðu þannig útgangi fangelsisins í Kænugarði þar sem nokkrum uppreisnarhermönnunum var haldið. Þeir eru andsnúnir því að fyrrum liðsmönnum Berkut, úkraínsku óeirðarlögreglunnar sem er sökuð um að hafa myrt 48 manns í lýðræðismótmælum í febrúar árið 2014, verði sleppt úr haldi.

Ríkissaksóknari Úkraínu segir að sakborningar í málum þurfi að koma fyrir dómara þrátt fyrir að þeim verði sleppt nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×