Erlent

Fyrrum ráðherra Obama dregur framboð sitt til baka

Kjartan Kjartansson skrifar
Castro varð lítt ágengt í forvali demókrata líkt og mörgum öðrum frambjóðendum sem töldu á upphafi á þriðja tug.
Castro varð lítt ágengt í forvali demókrata líkt og mörgum öðrum frambjóðendum sem töldu á upphafi á þriðja tug. AP/Jacquelyn Martin

Julian Castro, fyrrverandi húsnæðismálaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama, hefur dregið framboð sitt í forvali Demókrataflokksins í Bandaríkjunum til baka. Honum tókst ekki að afla nægilegs stuðnings né fjárframlaga til að vera gjaldgengur í næstu sjónvarpskappræður frambjóðendanna.

Í myndbandi sem Castro sendi stuðningsmönnum sínum fullyrti hann að framboðinu hafi tekist að hafa mikil áhrif á umræður í forvalinu. Hann hafi þó komist að þeirri niðurstöðu að nú væri ekki hans tími, að sögn AP-fréttastofunnar.

Castro var eini frambjóðandinn í forvalinu af rómönskum ættum. Hann var áður borgarstjóri í San Antonio í Texas og gegndi embætti húsnæðismálaráðherra á síðara kjörtímabili Obama forseta. Framboð hans í forvalinu komst aldrei á skrið og mældist Castro yfirleitt ekki með meira en 1% í skoðanakönnunum.

Eftir brotthvarf Castro eru fjórtán frambjóðendur eftir í forvali Demókrataflokksins. Forvalið fer fram yfir fimm mánaða tímabil en það hefst í Iowa í byrjun febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×