Erlent

Dæla efnum í ský til að koma í veg fyrir frekari úrkomu

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúi Jakarta flýtur um í frauðkassa eftir mikil flóð þar á gamlársdag og nýársmorgun.
Íbúi Jakarta flýtur um í frauðkassa eftir mikil flóð þar á gamlársdag og nýársmorgun. Vísir/EPA

Yfirvöld á Indónesíu reyna nú að láta flugvélar dæla efnum inn í ský til að koma í veg fyrir að frekari úrkoma falli í höfuðborginni Jakarta. Að minnsta kosti 43 hafa farist og hátt í 200.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóða og aurskriðna þar um áramótin.

Flugherinn skýtur nú salti inn í skýi sem eru talin líkleg til að bera með sér úrkomu. Saltið á að leysa skýin upp áður en þau ná til Jakarta. Yfirmaður tæknistofnunar landsins segir að þetta verði gert á hverjum degi næstu dagi ef þörf þykir. Reuters-fréttastofan segir að aðferðin sé notuð til að slökkva skógarelda á þurrkatímabilinu á Indónesíu.

Úrhellisúrkomu gerði í Jakarta og nágrenni þar sem um þrjátíu milljónir manna búa á gamlársdag og fram á nýársdag. Úrkoman er eins sú ákafasta sem þar hefur gert frá því að mælingar veðurstofu landsins hófust árið 1866.

Stofnunin telur að loftslagsbreytingar af völdum manna hafi aukið líkurnar á veðuröfgum sem þessum. Varar hún við því að mikil úrkoma geti haldið áfram fram í miðjan febrúar. Hún gæti náð hámarki á milli 11.- og 15. janúar.

Ekki bætir úr skák að Jakarta sekkur um nokkra sentímetra á ári vegna þess hversu hratt hefur verið gengið á grunnvatn þannig að berg- og setlög hafa fallið saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×