Erlent

Ráðist „hratt og harkalega“ á Íran ef Bandaríkin verða fyrir árás

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump hefur varað Írani við því að ráðast á Bandaríkin á nokkurn hátt.
Trump hefur varað Írani við því að ráðast á Bandaríkin á nokkurn hátt. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað við því að Bandaríkin hafi augun á 52 „skotmörkum“ í Íran og muni aðhafast „mjög hratt og mjög harkalega“ ef stjórnvöld í Íran komi til með að ráðast á Bandaríkjamenn eða annað sem gæti talist Bandaríkjamönnum mikilvægt.

Ummælin koma í kjölfar þess að Qassem Soleimani, háttsettur hershöfðingi innan íranska hersins, var ráðinn af dögum í Írak, að skipun forsetans, aðfaranótt föstudags. Íranar hafa heitið hefndum vegna morðsins á hershöfðingjanum.



Trump tísti um það að Íranir töluðu nú „umbúðalaust um að ráðast á ákveðnar eigur Bandaríkjanna,“ í kjölfar dauða Soleimani.

Hann sagði Bandaríkin hafa 52 skotmörk í sigtinu, nánar til tekið írönsk skotmörk. Sagði hann jafnframt að sum þeirra væru „á háum stalli og mjög mikilvæg Íran og íranskri menningu.“



Skotmörkin sem um ræðir myndu, ásamt Íran í heild sinni, verða fyrir árás „hratt og harkalega“ ef Íranir tækju þá ákvörðun að ráðast á Bandaríkin með nokkrum hætti

„Bandaríkin vilja ekki fleiri hótanir!“ bætti forsetinn við.



Trump segir að ástæðan fyrir því að möguleg skotmörk Bandaríkjanna séu 52 sé táknræn. Skotmörkin eigi að tákna þá 52 Bandaríkjamenn sem haldið var föngnum í Íran eftir að þeir voru handsamaðir í bandaríska sendiráðinu í Tehran, höfuðborg Írans, árið 1979.


Tengdar fréttir

Benda Írökum á að halda sig frá bandarískum herstöðvum

Leiðtogar Kataeb Hezbollah, harðlínusveitar írakska þjóðvarðarliðsins, hafa varað írakskar hersveitir við því að dvelja of nálægt bandarískum herstöðvum í Írak, frá og með eftirmiðdegi morgundagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×