Íslenski boltinn

Valur og KR mætast í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar tollera þjálfara sinn, Rúnar Kristinsson, eftir að þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 0-1 sigri á Valsmönnum á Hlíðarenda síðasta haust. Titilvörn KR hefst á sama stað.
KR-ingar tollera þjálfara sinn, Rúnar Kristinsson, eftir að þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 0-1 sigri á Valsmönnum á Hlíðarenda síðasta haust. Titilvörn KR hefst á sama stað. vísir/bára

Íslandsmeistarar KR sækja Val heim í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla miðvikudaginn 22. apríl.

Mótanefnd KSÍ hefur birt drög að leikjum Pepsi Max-deildar karla tímabilið 2020. Niðurröðun Pepsi Max-deildar karla má sjá með því að smella hér.

KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með 0-1 sigri á Hlíðarenda í haust. Titilvörn KR-inga 2020 hefst á sama stað.

Valur og KR mættust í upphafsleik Pepsi-deildarinnar fyrir tveimur árum. Valsmenn unnu þá dramatískan 2-1 sigur frammi fyrir fjölda áhorfenda.

Í 1. umferðinni mætast einnig Breiðablik og Grótta. Þetta er fyrsti leikur Seltirninga í efstu deild frá upphafi.

Breiðablik og Grótta skiptu á þjálfurum, ef svo má segja, í haust. Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Breiðabliki eftir að hafa stýrt Gróttu upp um tvær deildir á jafn mörgum árum. Ágúst Gylfason, sem stýrði Breiðabliki í tvö ár, tók við starfi Óskars hjá Gróttu.

Hinir nýliðirnar í Pepsi Max-deildinni, Fjölnir, sækja bikarmeistara Víkings R. heim í 1. umferðinni.

HK tekur á móti FH í Kórnum, KA sækir ÍA heim og Stjarnan og Fylkir mætast í Garðabænum.

Í lokaumferðinni mætir Heimir sínu gamla liði, FH, á Hlíðarenda. Stjarnan tekur á móti Breiðabliki og KR og Grótta mætast á Meistaravöllum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.