Erlent

Trump tilkynnti um nýjar þvinganir gegn Íran en ekki frekari árásir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að nýjar viðskiptaþvinganir yrðu lagðar á Írana vegna eldflaugaárása þeirra á bandarískar herstöðvar í Írak í nótt. Enginn fórst í árásunum.

Atburðirnir í nótt voru svar við morði Bandaríkjanna á Qasem Soleimani, hershöfðingja Quds-hersveita íranska byltingavarðliðsins og einum valdamesta manni landsins. Sú aðgerð var svar við árás sveita hliðhollra Íran á bandaríska sendiráðið í Bagdad sem var svo aftur svar við loftárás Bandaríkjamanna á Hezbollah í Írak.

Svo mætti lengi áfram halda enda hefur þessi keðjuverkun undið upp á sig allhressilega, í raun frá því Trump ákvað að Bandaríkin myndu segja sig frá kjarnorkusamningi stórvelda heimsins við Íran árið 2018.

Allt var á suðupunkti eftir drápið á Soleimani og óttuðust margir um að stríð væri yfirvofandi. Svarið kom eins og áður segir í nótt og sögðu írönsk stjórnvöld að von væri á frekari aðgerðum ef Bandaríkin gerðu gagnárás. Ítrekuðu jafnframt þá afstöðu sína að bandaríski herinn yrði að hörfa frá Mið-Austurlöndum.

En mannfall í nótt var ekkert og Trump tilkynnti ekki um frekari árásir í ávarpi sínu í dag. Sagði þó að stjórnvöld væru enn að fara yfir alla möguleika og að bandaríski herinn væri afar öflugur. „Svo virðist sem Íran ætli að bakka, sem er gott fyrir alla hlutaðeigandi og afar gott fyrir heimsbyggðina.“

Forsetinn varði drjúgum hluta ávarpsins í að gagnrýna fyrrnefndan kjarnorkusamning og hvatti aðildarríki hans til þess að koma aftur að borðinu og semja upp á nýtt. Hann kallaði einnig eftir því að Atlantshafsbandalagið leiki stærra hlutverk í Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×