Erlent

Segja mótmælendur pyntaða í haldi hvít-rússnesku lögreglunnar

Andri Eysteinsson skrifar
Mikil mótmæli hafa verið á götum höfuðborgarinnar Minsk síðustu daga.
Mikil mótmæli hafa verið á götum höfuðborgarinnar Minsk síðustu daga. EPA

Fjöldi aðgerðasinna og mannréttindasamtaka segja að mótmælendur sem handteknir hafa verið í mótmælum gegn Alexander Lúkasjenkó, hinum þaulsetna forseta Hvíta-Rússlands, hafi verið beittir pyntingum í haldi lögreglu.

Lúkasjenkó, sem hefur verið við völd frá árinu 1994, var endurkjörinn síðasta sunnudag á umdeildan hátt. Þegar talið var upp úr kjörkössunum vann forsetinn stórsigur en andstæðingar hans neita að samþykkja opinberar niðurstöður og saka Lúkasjenkó og hvít-rússnesk yfirvöld um kosningasvik. Á kosningakvöldið sjálft, eftir að niðurstöður einu útgönguspárinnar sem Lúkasjenkó hafði leyft voru birtar, flykktust mótmælendur út á götur borga landsins og lýstu yfir óánægju sinni.

Síðan þá hafa á sjöunda þúsund manns verið handtekin.

Barin, afklædd og lamin

Þau hinna handteknu sem sleppt hefur verið úr haldi hafa greint frá því að hafa verið beitt harðræði og pyntingum á meðan fangelsun þeirra stóð.

BBC greinir frá því að myndir hafi birst á samfélagsmiðlinum Nexta þar sem mótmælendur hafi sýnt meiðsli sín sem lögregla hafi valdið.

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja þá að fangar hafi verið barðir, neyddir til að bera sig og þeim hafi verið hótað nauðgun.

“Þau hafa sagt okkur að fangaklefarnir hafi orðið að pyntingaklefum þar sem mótmælendur eru neyddir til að liggja á meðan að lögregla sparkar og lemur þau með kylfum,” segir Marie Struthers yfirmaður Austur-Evrópu og Mið-Asíudeildar Amnesty International.

Þá hafa mannréttindasérfræðingar úr röðum Sameinuðu Þjóðanna sagt að viðbrögð hvítrússneskra stjórnvalda við mótmælunum hafi verið hörð og tekið á þeim með of mikilli og ónauðsynlegri hörku.

Innanríkisráðherra Hvíta-Rússlands, Júrí Karajév, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segist bera ábyrgð á því að mótmælendur hafi meiðst í mótmælunum og bað þá særðu afsökunar.

Tveir hafa látið lífið í mótmælunum samkvæmt yfirvöldum. Einn í höfuðborginni Minsk og annar í borginni Gomel í suð-austurhluta Hvíta-Rússlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.