Íslenski boltinn

Stefnt á að Blikar spili í Þrándheimi þó Ísland sé á rauðum lista

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik fær að spila tvo leiki í Pepsi Max-deildinni fram að leiknum við Rosenborg.
Breiðablik fær að spila tvo leiki í Pepsi Max-deildinni fram að leiknum við Rosenborg. VÍSIR/BÁRA

Þrátt fyrir að Ísland sé nú komið á rauðan lista í Noregi er enn stefnt að því að Breiðablik mæti Rosenborg í Þrándheimi í forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Liðin eiga að mætast í 1. umferð keppninnar þann 27. ágúst. Sigurliðið kemst áfram í 2. umferð og fær tugi milljóna króna frá UEFA í verðlaunafé.

Forráðamenn Breiðabliks áttu símafund með kollegum sínum hjá Rosenborg í dag. Það að Ísland sé komið á rauðan lista þýðir að íslenskir ferðamenn þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Noregs, en forráðamenn Rosenborg ræða nú við stjórnvöld um undanþágu frá því.

„Við reiknum áfram með því að leikurinn fari fram í Þrándheimi. Þetta eru auðvitað glænýjar fréttir en þeir [forráðamenn Rosenborg] eru að vinna með yfirvöldum og kappkosta að við fáum leyfi til að koma til landsins,“ segir Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Á ábyrgð Rosenborg að fá undanþágu

Samkvæmt reglum UEFA er það á ábyrgð Rosenborg að fá undanþágu fyrir Blika og fáist hún ekki verður Blikum úrskurðaður 3-0 sigur. Rosenborg hefur reyndar einnig þann möguleika að færa leikinn á hlutlausan völl í öðru landi en að sögn Sigurðar virðist afar ólíklegt að sú verði raunin. Lönd á borð við Grikkland og Ungverjaland hafa boðist til að taka á móti liðum sem vilja spila á hlutlausum velli.

Blikar munu leigja sér flugvél til að ferðast til Noregs og fá til þess 6,4 milljóna króna styrk frá UEFA. Ef allt gengur upp munu þeir ferðast til Noregs tveimur dögum fyrir leik, eftir að hafa farið í skimun fyrir kórónuveirunni hér á landi, og heim aftur fljótlega eftir leik. Miðað við núgildandi reglur þurfa Blikar ekki að fara í sóttkví við komuna aftur til Íslands.

Blikar snúa aftur til keppni eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins á sunnudaginn þegar þeir mæta Víkingi R.. Þeir eiga leik við Gróttu föstudaginn 21. ágúst áður en haldið verður til Noregs fjórum dögum síðar, ef allt gengur að óskum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×