Íslenski boltinn

Íslenski fótboltinn byrjar aftur á Pepsi Max fótbolta fjóra daga í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn FH og Sjtörnunnar eiga að spila á föstudagskvöld og mánudagskvöld eins og planið er núna í Pepsi Max deild karla.
Leikmenn FH og Sjtörnunnar eiga að spila á föstudagskvöld og mánudagskvöld eins og planið er núna í Pepsi Max deild karla. Vísir/Daníel Þór

Sjö leikir í Pepsi Max deild karla eru áætlaðir á fyrstu fjórum dögunum eftir að má spila fótbolta á ný á Íslandi.

Knattspyrnusamband Íslands gaf það formlega út í gær að stefnt væri á það að hefja leik á Íslandsmótinu á ný á föstudaginn en þá eru tvær vikur síðan allt var sett í frost vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þetta hlé þýddi meðal annars að það þurfti að fresta tveimur heilum umferðum í Pepsi Max deild karla, umferðum tíu og ellefu.

Mótanefnd Knattspyrnusambands Íslands er búin að endurraða leikjum í tólftu umferð Pepsi Max deildar karla og ætlar ekki að færa færðan leik KR og Stjörnunnar úr fjórðu umferð.

Þetta þýðir að fyrstu fjóra dagana eftir að íslenski fótboltinn fær grænt ljós þá munu vera spilaðir sjö leikir á fjórum dögum og tvö liðana munu spila tvisvar á 72 klukkutímum.

Liðin sem spila tvisvar eru lið FH og Stjörnunnar. Frestaður innbyrðis leikur þeirra á að fara fram á mánudaginn en fyrst spila þau bæði leiki á föstudaginn. FH heimsækir þá KR í Vesturbæinn en Stjarnan tekur á móti Gróttu.

Mjög harðar sóttvarnarreglur verða í gildi á þessum leikjum og þá fara þessir leikir væntanlega fram fyrir luktum dyrum.

Leikir helgarinnar í Pepsi Max deildinni samkvæmt mótasíðu KSÍ.

  • Föstudagurinn 14. ágúst
  • Klukkan 18.00 KR - FH
  • Kl. 19.15 Stjarnan - Grótta
  • Laugardagurinn 15. ágúst
  • Kl. 16.00 ÍA - Fylkir
  • Kl. 16.00 Valur - KA
  • Sunnudagurinn 16. ágúst
  • Kl. 17.00 HK - Fjölnir
  • Kl. 19.15 Víkingur R. - Breiðablik
  • Mánudagurinn 17. ágúst
  • Kl. 18.00 FH - Stjarnan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×