Erlent

For­seta­fram­bjóðandi missti af fyrsta fram­boðs­fundinum vegna á­rásar leður­blöku

Andri Eysteinsson skrifar
Jo Jorgensen mun kljást við Donald Trump og Joe Biden í nóvember næstkomandi.
Jo Jorgensen mun kljást við Donald Trump og Joe Biden í nóvember næstkomandi. Getty/SOPA

Forsetaframbjóðandi bandaríska Frjálshyggjuflokksins, háskólakennarinn Jo Jorgensen, sá sér ekki fært að mæta á fyrsta skipulagða viðburð kosningabaráttu hennar sem fara átti fram fyrr í dag. Jorgensen mun verja helginni í kosningaferð um suðurríkin Mississippi og Louisiana.

Politico greinir frá því að aflýsa þurfti framboðsfundi Jorgensen eftir að hún var bitin af leðurblöku og þurfti að leita læknisaðstoðar til þess að fá hundaæðissprautu. Ekki er vitað hvernig það atvikaðist en Jorgensen grínaðist með atvikið á Twitter-síðu sinni þegar Twitter notandi sagði henni að til þess að öðlast ofurkrafta yrði hún að vera bitin af geislavirkri könguló. Batman hafi ekki verið bitinn af leðurblöku.

Jorgensen svaraði um hæl og sagðist einfaldlega ekki vera Leðurblökumaðurinn.

Jorgensen ætlaði þó ekki að láta bitið stoppa sig frekar og sagðist ætla að taka þátt í öðrum viðburðum sem skipulagðir hafa verið um helgina.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnun CNBS mælist Jorgensen með 2% stuðning kjósenda. Frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins hefur mest fengið 3,29% kosningu en það var Gary Johnson sem bauð sig fram á móti Donald Trump og Hillary Clinton árið 2016.

Jo Jorgensen hefur áður verið í framboði en hún hlaut 0,5% kosningu sem varaforsetaefni Harry Browne 1996 og 2,2% kosningu í framboði til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fyrir SC-4 í Suður Karólínu árið 1992.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.