Íslenski boltinn

KSÍ sagt vonast eftir því að fá leyfi til að spila leiki um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson og Finnur Orri Margeirsson í leik KR og Breiðabliks fyrr í sumar.
Brynjólfur Andersen Willumsson og Finnur Orri Margeirsson í leik KR og Breiðabliks fyrr í sumar. Vísir/Bára

Knattspyrnusamband Íslands frestaði fyrr í vikunni leikjum til og með dagsins í dag en sambandið vonast enn eftir því að leikir geti farið fram á Íslandi um helgina.

Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins er í gangi hér á landi og það hefur kallað á harðari reglur varðandi sóttvarnir. Engir fótboltaleikir hafa farið fram hér á landi síðan 30. júlí.

Samkvæmt frétt hjá Fótbolta.net þá hefur KSÍ skilað inn tillögum um með hvaða hætti sé hægt að hefja leik að nýju en um alla Evrópu er fótbolti í gangi, þar á meðal í öllum nágrannalöndum okkar.

KSÍ er þar sagt vera að bíða eftir grænu ljósi frá heilbrigðisyfirvöldum en enn hefur leikjum helgarinnar ekki verið frestað.

Í fréttinni kemur fram að fulltrúar Knattspyrnusambandsins munu í dag halda fjarfund með félögum í efstu deildum þar sem farið verið yfir framhaldið og þá möguleika sem eru í boði.

Hér er væntanlega um að ræða möguleikann á því að spila fyrir luktum dyrum í næstu leikjum, leið sem Færeyingar völdu til að sleppa við að fresta fótboltanum hjá sér. Þá hefur verið rætt, samkvæmt upplýsingum vefsíðunnar Fótbolti.net, um að auka eftirlit með heilsufari leikmanna og starfsmanna.

Sumarið er að renna frá KSÍ og ef á að klára Íslandsmótin þá mega ekki verða mikið lengri hlé á leik. Tímabilið fór einum og hálfum mánuði seinna af stað og þá komu einnig til frestanir vegna þess að einstök lið þurftu að fara í sóttkví.

Evrópukeppnir félagsliða fara í gang seinna í þessum mánuði og þá eru landsleikir í september. KSÍ frestað á þriðjudaginn leikjum til 7. ágúst og það er því von á einhvers konar yfirlýsingu í dag hvort sem það er um að fresta fleiri leikjum eða að spila næstu leiki með sérstöku fyrirkomulagi sem tekur enn meira tillit til sóttvarna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.