Erlent

300 þúsund án heimilis eftir sprenginguna í Beirút

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengingin var gríðarlega kraftmikil og fundust skjálftar hennar vegna á Kýpur, sem er í um 200 kílómetra fjarlægð.
Sprengingin var gríðarlega kraftmikil og fundust skjálftar hennar vegna á Kýpur, sem er í um 200 kílómetra fjarlægð. AP/Hussein Malla

Allt að 300 þúsund manns misstu heimili sín í stærðarinnar sprengingu í Beirút í Líbanon í gær. Tjónið vegna sprengingarinnar var þar að auki minnst þrír milljarðar dala og allt að fimm milljarðar. Marwan Abboud, ríkisstjóri héraðsins sem Beirút er í, segir að skemmdir hafi orðið á um helmingi bygginga í borginni allri.

Minnst hundrað manns eru dánir og þúsundir slösuðust í sprengingunni. Nánast öruggt er að tala látinna muni hækka þar sem björgunarstörf standa enn yfir og talið er að fólk hafi grafist í húsarústum. Margra er saknað.

Útlit er fyrir að sprengingin hafi orðið þegar eldur kviknaði í flugeldum sem voru í vöruskemmu við höfn Beirút. Eldurinn mun svo hafa borist í ammóníum nítrat, sem geymt hafði verið við höfnina um árabil.

Sjá einnig: Þúsundir tonna sprengifims efnis geymd í sex ár

Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við og fóru yfir myndbönd af sprengingunni segja þau styðja við að um ammóníum nítrat hafi verið að ræða.

Fjölmörg myndbönd af sprengingunni má sjá í fréttinni frá því í gær.

Íbúar Líbanon hafa gengið í gegnum erfiða tíma að undanförnu þar sem ástand efnahags ríkisins er mjög slæmt, sem hefur leitt til umfangsmikilla mótmæla í borgum landsins og áköllum eftir endurbótum. Þá hafa sjúkrahús í Líbanon einnig þurft að glíma við töluverða útbreiðslu Covid-19.

Skaðinn á höfn Beirút er gífurlega mikill og hafa þegar vaknað áhyggjur um það hvort aðrar hafnir landsins geti séð um út- og innflutning nauðsynja.

Samkvæmt AP fréttaveitunni eru um 80 prósent af korni sem íbúar Líbanon neyta innflutt. Þar að auki voru um 85 prósent þeirra kornbirgða sem til voru í landinu geymdar á hafnarsvæðinu og eru nú taldar ónýtar.

Hasssan Diab, forsætisráðherra, kallaði í eftir hjálp annarra ríkja í sjónvarpsávarpi í gær.

Hér að neðan má sjá tíst frá Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar. Stærðarinnar gígur myndaðist þar sem sprengingin varð en stór hluti kornbirgða Líbanon var geymdur í byggingunni sem stendur við gíginn.


Tengdar fréttir

Yfir 100 látin og þjóðarsorg lýst yfir

Þjóðarsorg ríkir nú í Líbanon eftir hina gríðarlega öflugu sprengingu sem varð í gær á hafnarsvæðinu í höfuðborginni Beirút. Tala látinna stendur nú í rúmlega hundrað manns,Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.