Erlent

Þúsundir tonna sprengifims efnis geymd í sex ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermenn flytja slasað fólk eftir sprengingarnar í Beirút í dag. Vitni segja að fjöldi fólks hafi slasað þegar það varð fyrir fljúgandi glerbrotum og braki.
Hermenn flytja slasað fólk eftir sprengingarnar í Beirút í dag. Vitni segja að fjöldi fólks hafi slasað þegar það varð fyrir fljúgandi glerbrotum og braki. AP/Hassan Ammar

Forseti Líbanons segir að um 2.750 tonn af afar sprengifimu efni hafi verið geymt við óviðunandi aðstæður á höfninni í Beirút í sex ár. Gríðarleg sprenging varð þegar eldur komst í efnið og eru tugir manna í það minnsta látnir og þúsundir slösuð.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum heilbrigðisráðuneytis Líbanons eru að minnsta kosti sjötíu látnir eftir sprenginguna í dag. Sjúkrahús eru sögð yfirfull og margar byggingar í borginni rústir einar. Talið er að fjöldi manns kunni að vera grafinn undir húsarústum. Washington Post segir að svo virðist sem að minnsta kosti tvær stórar sprengingar hafi orðið.

Michel Aoun, forseti, tísti í kvöld um að það væri „óásættanlegt“ að þúsundir tonna af ammónríumnítrati hafi verið geymdar á höfninni við ófullnægjandi aðstæður um árabil. Hann lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og lofaði að ríkisstjórnin ætlaði að leggja jafnvirði um níu milljarða króna í neyðaraðstoð.

„Ég lofa ykkur því að þessar hamfarir muna ekki líða hjá án þess að einhver verði dreginn til ábyrgðar. Þeir ábyrgu munu greiða fyrir það,“ sagði Hassan Diab, forsætisráðherra, ennfremur í sjónvarpsviðtali.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC segir að höfnin í Beirút, þar sem sprengingin varð, sé svo löskuð að hún sé ónothæf. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist á Kýpur, um 240 kílómetra í burtu. AP-fréttastofan hefur eftir þýsku jarðfræðimiðstöðinni að stærri sprengingin hafi jafnast á við jarðskjálfta upp á 3,5.

Hamfararnir koma á versta tíma fyrir Líbanon sem glímir við djúpa efnahagskreppu og óstöðugleika ofan á kórónuveirufaraldurinn.

Sprengingarnar jöfnuðu höfnina í Beirút svo gott við jörðu.AP/Hassan Ammar

Lofa aðstoð sinni

Leiðtogar erlendra ríkja hafa heitið Líbanon aðstoð sína. Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði Bandaríkjastjórn reiðubúna til aðstoðar. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bauð fram hjálp Breta og frönsk stjórnvöld segjast ætla að senda neyðaraðstoð til Beirút.

Ísraelsk stjórnvöld segjast hafa haft samband við stjórnvöld í Líbanon í gegnum milliliði og boðið fram læknis- og mannúðaraðstoð. Engin formleg samskipti eru á milli ríkjanna tveggja en stríðsástand ríkir á milli þeirra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sendu Líbönum samúðarkveðjur á Twitter í kvöld. Hét utanríkisráðherra aðstoð Íslands.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fréttamönnum í kvöld að „frábærir herforingjar“ hefðu sagt honum að þeirra tilfinning væri að sprengingarnar hafi verið árás. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að nokkuð sé hæft í því eða að bandarískir herforingjar hafi haldið því fram að um árás hafi verið að ræða.

Hezbollah-samtökin, sem elda grátt silfur saman við Ísraelsstjórn, kenndu engum um sprengingarnar í yfirlýsingu í dag. Lýstu þau atburðum sem „gríðarlegum þjóðarharmleik“ og hvöttu þjóðina til samstöðu, að sögn Washington Post.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá myndskeið af sprengingunum og eftirleik þeirra frá Reuters-fréttastofunni.


Tengdar fréttir

Sendu Líbönum sam­úðar­kveðjur vegna sprengingarinnar í Beirút

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sendu Líbönum samúðarkveðjur vegna sprengingarinnar mannskæðu í Beirút í dag. Að minnsta kosti sextíu manns eru sagðir hafa farist og þúsundir slasast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.