Erlent

Á þriðja þúsund slösuð og spítalar yfirfullir í Beirút

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Tölur um mannfall eru á reiki eftir gífurlega öfluga sprengingu sem skók Beirút höfuðborg Líbanon nú síðdegis og olli gríðarmiklu tjóni. 

Abbas Ibrahim, hershöfðingi og yfirmaður almannavarna í Líbanon, sagði skýringuna líklega þá að eldur hefði borist í vöruskemmu með sprengifimu efni sem var gert upptækt. Hann hafnaði vangaveltum um ísraelska eldflaugaárás og að eldur hefði borist í flugelda.

Líbanski miðillinn LBCI hafði eftir heimildarmönnum að um hafi verið að ræða natríumnítrat, einnig kallað Chile saltpétur, sem var gert upptækt fyrir meira en ári.

Mörg hundruð særðust og eru spítalar sagðir yfirfullir. AP greinir frá að yfir 50 séu látnir og að yfir 2.500 hafi særst. Sjónarvottar sögðu við líbanska miðla að tugir látinna væru á vettvangi.

Þá hafa líbanskir miðlar sagt að fólk gæti verið fast undir rústum byggingarinnar. Borgarbúar í allt að tíu kílómetra fjarlægð frá sprengingunni greindu frá brotnum rúðum og öðru tjóni á samfélagsmiðlum.

Sömuleiðis var greint frá annarri mögulegri sprengingu við hús Hariri-fjölskyldunnar en þær fréttir hafa ekki verið staðfestar. Saad Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, er sagður óhultur en kona hans og dóttir lítillega slasaðar. Búist er við dómi í máli Rafiks Hariris, fyrrverandi forsætisráðherra sem var myrtur árið 2005, í lok vikunnar en sakborningar eru fjórir liðsmenn Hezbollah-samtakanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Að minnsta kosti tíu látnir í Beirút

Að minnsta kosti tíu eru látnir eftir gríðarstóra sprengingu á hafnarsvæði líbönsku höfuðborgarinnar Beirút á fjórða tímanum í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.