Erlent

Hyggjast byrja að bólu­setja í októ­ber

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseti og Mikhail Murashko heilbrigðisráðherra á fundi í janúar síðastliðinn.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti og Mikhail Murashko heilbrigðisráðherra á fundi í janúar síðastliðinn. ALEXEI DRUZHININ/KREML/EPA

Yfirvöld heilbrigðismála í Rússlandi stefna á að byrja að bólusetja fólk í landinu fyrir kórónuveirunni í þar næsta mánuði. Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir Mikhail Murashko, heilbrigðisráðherra Rússa.

Ráðherrann hefur þá sagt að læknar og kennarar yrðu fyrstu starfsstéttirnar sem yrðu bólusettar. Reuters-fréttastofan hefur þá heimildir fyrir því að bóluefnið sem Rússar hyggjast nota verði samþykkt af þar til bærum eftirlitsaðilum síðar í ágúst.

Þó hafa einhverjir áhyggjur af fyrirætlunum Rússa um að byrja að bólusetja. Dr. Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, segist vona að Rússar, og Kínverjar sem einnig hyggja á bólusetningu fyrir veirunni á næstunni, hafi raunverulega prófað bóluefnið áður en það verður tekið í almenna notkun.

Fauci hefur sagt að „öruggt og skilvirkt“ bóluefni verði tilbúið í Bandaríkjunum í lok þessa árs. Hann segist telja að Bandaríkin muni geta séð um sig sjálf í bóluefnamálum.

„Ég tel það ekki vera svo að margir muni koma fram með bóluefni svo langt á undan okkur að við komum til með að þurfa að treysta á önnur ríki til þess að fá bóluefni,“ sagði Fauci við þingnefnd Bandaríkjaþings á dögunum.

Verið er að þróa tugi mismunandi mögulegra bóluefna við veirunni víða um heim og eru yfir 20 þeirra nú í meðferðarrannsóknum.

Murashko heilbrigðisráðherra segir að meðferðarrannsókn á rússneska bóluefninu sé lokið. Nú þurfi bara að vinna pappírsvinnuna til að fá bóluefnið samþykkt.

„Við hyggjum á útbreidda bólusetningu í október.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.