Erlent

Pólsk yfir­völd sögð undir­búa rit­skoðun fjöl­miðla

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jarosław Kaczyński, leiðtogi Laga og réttlætisflokksins, undirbýr nú innleiðingu nýrra laga sem takmarka ritstjórnarfrelsi fjölmiðla.
Jarosław Kaczyński, leiðtogi Laga og réttlætisflokksins, undirbýr nú innleiðingu nýrra laga sem takmarka ritstjórnarfrelsi fjölmiðla. EPA/Wojtek Jargilo

Pólska ríkisstjórnin undirbýr nú aðgerðir til að ritskoða fjölmiðla í einkaeigu undir því yfirskini að það eigi að færa fyrirtækin í frekari eigu Pólverja og að koma í veg fyrir að hvert fjölmiðlafyrirtæki geti rekið marga miðla.

Fréttamenn án landamæra (e. Reporters Without Borders) hafa kallað eftir því að Þýskaland, sem nú fer með forsæti Leiðtogaráðs Evrópusambandsins og er jafnframt eitt helsta samstarfsland Póllands, grípi til aðgerða.

Andrzej Duda, forseti Póllands.EPA/TOMASZ WASZCZUK

Andrzej Duda, forseti Póllands sem fór naumlega með sigur af hólmi í nýafstöðnum forsetakosningum, virðist hafa lofað Jarosław Kaczyński, leiðtoga stjórnarflokksins Lög og réttlæti, að ný fjölmiðlastefna ríkisstjórnarinnar muni ná fram að ganga í fyrsta viðtalinu sem Kaczyński gaf eftir kosningar. Samkvæmt nýjum lögum um að fjölmiðlafyrirtæki skulu vera í eigu Pólverja geta erlendir fjárfestar aðeins átt 15 til 30 prósenta hlut í pólskum fjölmiðlum. Þá mun hluti laganna einnig takmarka það hve marga miðla hvert fjölmiðlafyrirtæki getur rekið.

Kaczyński sagði fyrri hluta aðgerðanna tryggja að fleiri fjölmiðlar sýndu heiminn á „sannari hátt“ og að síðari hlutinn væri til þess fallinn að samkeppnislög samræmdust frekar evrópskri löggjöf. Að sögn Fréttamanna án landamæra er hið rétta markmið að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðla sem eru, í það minnsta enn í dag, sjálfstæðir.

Að sögn leiðtoga stjórnarflokksins ættu „pólskir fjölmiðlar að vera pólskir,“ vegna þess, samkvæmt þeirra kenningu, að „Þjóðverjarnir“ höfðu áhrif á forsetakosningarnar. Fjölmiðlar án landamæra segja þetta vera skot á þýsk-svissneska fjölmiðlarisann Ringier Axel-Springer. Ringier Axel-Springer á hlut í pólska dagblaðinu Fakt sem fjallaði um það, á meðan á forsetakosningunum stóð, þegar Duda veitti barnaníðingi uppreist æru.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.