Innlent

Fundar með pólska sendi­herranum vegna Istanbúl­samningsins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Ákvörðun Pólverja um að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi fellur í grýttan jarðveg. 

Pólsk stjórnvöld hófust handa í dag við að segja sig frá Istanbúlsamningnum. Sendiherra Póllands á Íslandi hefur samþykkt að hitta formann Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins til að ræða málið.

„Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir fundi með sendiherranum er einmitt til að tjá honum mínar áhyggjur sem formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um að ef af verður, ef pólska ríkisstjórnin lætur af því verða að segja sig frá þessum mikilvæga samningi mun það í raun og veru þýða hættur fyrir konur, börn, stúlkur og fjölskyldur í Póllandi,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.

Rósa Björk segir málið hafa vakið hörð viðbrögð á vettvangi Evrópuráðsþingsins og víðar. Fjöldi Pólverja hefur sömuleiðis mótmælt ákvörðuninni en dómsmálaráðherra landsins sagði hana byggða á því að samningurinn byggi á hugmyndafræði, meðal annars um félagslega mótun kyns, sem stangist á við hefðbundin pólsk gildi. Pólsk lög séu nóg til að vernda pólskar konur.

„Það er  verið að nota Istanbúlsamninginn, sem í raun og veru inniheldur gríðarlega öflug tæki til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi, til að búa til einhvers konar misskilning um að samningurinn snúist um eitthvað annað en hann er. Þar er náttúrulega verið að róa undir og halda áfram á þessari braut sem pólsk stjórnvöld hafa verið á, að draga úr mannréttindum hinsegin fólks,“ segir Rósa Björk enn fremur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×