Íslenski boltinn

Berglind Björg skorað jafn mörg eða fleiri mörk en helmingur liðanna í deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er markahæst í Pepsi Max-deild kvenna með ellefu mörk.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er markahæst í Pepsi Max-deild kvenna með ellefu mörk. vísir/bára

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sitt ellefta mark í Pepsi Max-deild kvenna í sumar þegar Breiðablik vann stórsigur á Fylki, 0-4, á Würth-vellinum í Árbænum í gær.

Eyjakonan hefur núna skorað jafn mörg mörk eða fleiri en fimm af tíu liðum í Pepsi Max-deildinni.

Í sjö deildarleikjum hefur Berglind skorað jafn mörg mörk og Fylkir (11) og fleiri mörk en Selfoss (10), ÍBV (9), KR (9) og FH (3). Síðastnefnda liðið hefur leikið átta leiki en hin sjö.

Berglind hefur skorað í sex af sjö leikjum Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni í sumar. Selfoss er eina liðið sem Berglindi hefur mistekist að skora gegn. Hún hefur skorað tvær þrennur, einu sinni tvö mörk í leik og þrisvar sinnum eitt mark í leik.

Blikar hafa unnið alla sjö leiki sína í Pepsi Max-deildinni, skorað 28 mörk og ekki enn fengið á sig mark. Breiðablik er með tveggja stiga forskot á Íslandsmeistara Vals og á auk þess leik til góða.

Berglind skoraði þriðja mark Breiðabliks í leiknum í gær á 29. mínútu. Hún fékk þá boltann frá Öglu Maríu Albertsdóttir með bakið í markið, sneri skemmtilega og skoraði með vinstri fótar skoti. Markið má sjá hér fyrir neðan.

 Berglind vann gullskóinn 2018 og 2019 og miðað við byrjunina á þessu tímabili er ekki ólíklegt að hún verði markadrottning þriðja árið í röð.

Framherjinn öflugi hefur alls skorað 136 mörk í 188 leikjum í efstu deild á Íslandi. Í vetur lék hún með AC Milan á Ítalíu og skoraði fimm mörk í fimm leikjum með liðinu.

Mörk liða í Pepsi Max-deild kvenna í sumar

  • Breiðablik - 28
  • Valur - 21 (8 leikir)
  • Þróttur - 14 (8 leikir)
  • Stjarnan - 14 (8 leikir)
  • Þór/KA - 13
  • Fylkir - 11
  • Selfoss - 10
  • ÍBV - 9
  • KR - 9
  • FH - 3 (8 leikir)

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×