Enski boltinn

Bretaprins segir að Georg litli geti orðið markahæsti leikmaður Aston Villa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Georg prins af Cambridge er nýorðinn sjö ára.
Georg prins af Cambridge er nýorðinn sjö ára. getty/Max Mumby

Vilhjálmur Bretaprins vonast til að eldri sonur sinn, Georg, haldi með Aston Villa eins og hann. Og hann segir að strákurinn geti orðið markakóngur hjá Villa í framtíðinni.

Vilhjálmur var gestur Peters Crouch, fyrrverandi leikmanns Liverpool, Tottenham og fleiri liða, í hlaðvarpinu That Peter Crouch Podcast. Þar ræddu þeir m.a. um hvaða liði Georg litli haldi með.

„Fyrir nokkru fór ég með Georg og Karlottu á leik Norwich og Villa á Carrow Road. Við reyndum að láta lítið fyrir okkur fara en Sky fann okkur. Georg lifði sig mikið inn í leikinn undir lokin. Ég skipa honum ekki að halda með Villa. Hann fær að velja það sjálfur,“ sagði Vilhjálmur.

Prinsinn var spurður að því hvort Georg gæti ekki skorað nokkur mörk fyrir Villa ef hann myndi leggja fótboltann fyrir sig.

„Ábyggilega. Hann gæti það eflaust, orðið markahæsti leikmaður félagsins. Ég sé enga ástæðu fyrir öðru,“ sagði Vilhjálmur.

Hann segist hafa haft áhyggjur af því að Georg héldi með Chelsea, áður en Frank Lampard tók við liðinu.

„Áður var ég smá smeykur um að hann myndi halda með Chelsea. En eftir að Frank tók við hefur menningin hjá Chelsea breyst svo það yrði í lagi mín vegna. Ég kann að meta gildi félagsins,“ sagði Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×