Innlent

„Sérstakt“ ef færa á lögreglustjórann til Eyja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir sérstakt að leysa eigi deilur með því að senda lögreglustjóra Suðurnesja til Eyja.

Dómsmálaráðherra mun hafa beðið Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra að flytja sig til Eyja og taka við lausu embætti lögreglustjóra þar vegna átaka innan embættisins á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn í Eyjum segir bæjarbúa hissa.

Sérstakt útspil

„Þetta er mjög sérstakt útspil hjá ráðherra og hefur vakið talsverð viðbrögð hérna í Vestmannaeyjum. Ef dómsmálaráðherra metur viðkomandi einstakling óhæfan til að gegna því embætti sem hann er í dag er mjög sérstakt að flytja hann í sams konar embætti annars staðar,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri.

Hún segist hafa óskað eftir skýringum frá dómsmálaráðherra. „Og ég geri bara ráð fyrir því að fleiri í bæjarstjórn hafi gert það. Margir í bæjarstjórn hafa tjáð sig um þetta opinberlega. Fólk er hissa á þessu en við hljótum að fá skýringar á næstu dögum um hvað er hér í gangi.“

Ólafur Helgi hafi andmælarétt

Sérfræðingar í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem fréttastofa ræddi við segja réttindi skipaðs embættismanns ansi mikil, svo framarlega sem hann hafi ekki beinlínis brotið af sér í starfi og brugðist hafi verið við því með viðeigandi hætti. 

Vilji dómsmálaráðherra flytja Ólaf Helga frá Suðurnesjum verði það að gerast í samráði við hann, gæta þurfi meðalhófs við ákvörðunina og Ólafur Helgi verði að njóta andmælaréttar sé hann ekki sáttur við ákvörðun dómsmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Starfsmannalög heimila flutning embættismanna milli embætta

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er kveðið á um að ráðherra geti flutt embættismann á milli embætta sem undir hann heyra. Það verði þó að gerast að ósk eða með samþykki viðkomandi embættismanns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×