Íslenski boltinn

Brynjar Björn: Dómararnir eiga ekki að vera til umræðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
HK - Breiðablik. Pepsi deild karla, sumarið 2019. Knattspyrna, fótbolti.
HK - Breiðablik. Pepsi deild karla, sumarið 2019. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

„Ég er bara svekktur með mörkin sem við fengum á okkur, upp úr hverju þau komu. Fylkir átti tvær sóknir í seinni hálfleik og skoraði tvö mörk sem er ekki nógu gott,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við Vísi eftir tapið fyrir Fylki í Árbænum, 3-2, í kvöld.

„Við brugðumst ágætlega við og settum þrýsting á þá, áttum skot í slá og gerðum tilkall til vítaspyrnu í eitt til tvö skipti en ég átti erfitt með að sjá það. Við áttum kannski engin dauðafæri en ágætis möguleika.“

Brynjar Björn virkaði mjög ósáttur við dómgæsluna á Würth-vellinum í kvöld. Hann vildi þó ekkert tjá sig um hana eftir leik.

„Ég nenni ekki að tala um dómarana. Þeir eiga ekki að vera til umræðu og eru bara ekki hluti af jöfnunni í okkar leik,“ sagði Brynjar Björn.

Eftir að hafa haldið hreinu gegn Breiðabliki bilaði vörn HK aftur í leiknum í kvöld. HK-ingar hafa haldið hreinu gegn KR-ingum og Blikum í sumar en fengið á sig 22 mörk í hinum sjö deildarleikjunum.

„Við verðum að klára þessar stöður. Við vorum með fulla einbeitingu á móti KR og Breiðabliki en svo slökknar á okkur. Við gleymum okkur, horfum á boltann og sjáum ekki hlaup í kringum okkur,“ sagði Brynjar Björn.

HK-ingar virkuðu mjög opnir til baka þegar þeir töpuðu boltanum í leiknum í kvöld. Og upp úr því fengu Fylkismenn sín bestu færi.

„Við virðumst vera opnir til baka. Engu að síður erum við komnir til baka nokkuð margir en vorum ekki nógu góðir í þessari einn á móti einum stöðu,“ sagði Brynjar Björn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×