Erlent

„Ábyrgðin alfarið Bandaríkjamanna“

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Bandaríkjamenn yfirgáfu í morgun ræðisskrifstofu sína í kínversku borginni Chengdu. Kínversk stjórnvöld skipuðu Bandaríkjunum að loka skrifstofunni eftir að Bandaríkjamenn létu loka ræðisskrifstofu Kínverja í Houston.

Fáni Bandaríkjanna var tekinn niður, skilti voru fjarlægð og starfsmenn gengu út eftir að þriggja sólarhringa fresturinn sem Kínverjar gáfu Bandaríkjamönnum til að loka skrifstofunni rann út í morgun.

Nokkur hópur Kínverja safnaðist saman fyrir utan ræðisskrifstofunna og mótmælti Bandaríkjamönnunum. Lengi lifi Kommúnistaflokkur Kína, heyrðist hrópað.

Lokun skrifstofunnar í Chengdu kemur ekki á óvart og segja kínversk stjórnvöld þetta vera bæði réttlátt og nauðsynlegt svar við lokun kínversku ræðisskrifstofunnar í Houston.

„Við viljum ekki hafa samband Kína og Bandaríkjanna eins og það er nú. Ábyrgðin á því er alfarið Bandaríkjamanna. Við hvetjum Bandaríkin enn á ný til þess að leiðrétta mistök sín og skapa þær aðstæður sem þarf til að samband ríkjanna blómstri,“ sagði Wang Wenbin, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, á blaðamannafundi í dag.

Bandaríkjamenn létu loka skrifstofunni í Houston í síðustu viku í því skyni að fyrirbyggja hugverkastuld og njósnir. Bandaríski utanríkisráðherrann sagði fyrir helgi að Kínverjar hefðu kostað milljónir Bandaríkjamanna störf sín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×