Um­fjöllun og við­töl: FH - Grótta 2-1 | Mikil­vægur sigur FH gegn sprækum Sel­tirningum

Smári Jökull Jónsson skrifar
FH - ÍA Pepsi max deild karla, Sumar 2020.

FH - ÍA Pepsi max deild karla, Sumar 2020.
 Foto: hag / Haraldur Guðjónsson/Ljósmynd/hag

FH er enn taplaust undir stjórn Eiðs Smára Guðjohnsen og Loga Ólafssonar eftir 2-1 sigur á Gróttu í Kaplakrika í kvöld. Sigurinn var þó langt í frá öruggur og gestirnir náðu talsverðri pressu á FH-liðið í lokin.

Þegar Þórir Jóhann Helgason kom FH yfir strax á 8.mínútu leiksins voru margir sem héldu að eftirleikurinn yrði auðveldur fyrir heimamenn. Sú varð ekki raunin og Grótta átti margar ágætar sóknir í fyrri hálfleik sem þeir nýttu þó ekki nógu vel.

Í síðari hálfleik var svipað upp á teningunum og það var síður en svo gegn gangi leiksins þegar Gróttumenn jöfnuðu í 1-1 með heldur klaufalegu marki. Steven Lennon svaraði hins vegar tveimur mínútum síðar og skoraði sigurmarkið Lokamínúturnar voru æsispennandi og Grótta nýtti sér hæð leikmanna sinna og ógnuðu með löngum boltum eða í föstum leikatriðum. FH stóðst pressuna og fögnuðu mikilvægum sigri.

Af hverju vann FH?

Einstaklingsgæðin í þeirra liði eru töluvert meiri en í Gróttuliðinu. Steven Lennon er dæmi um slíkan leikmann og hann gerði afar vel þegar hann kláraði færið í seinna markinu. Bæði mörk FH komu eftir fínar sóknir þar sem þeir sýndu að það er mikið sem býr í þessu liði.

Grótta kom sér oft í fínar stöður sem þeir hefðu getað nýtt betur. Síðasta sending var stundum ekki nógu góð eða þá að hún kom af seint. Þeir spiluðu samt fínan leik í kvöld og hefðu vel getað jafnað metin undir lokin.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá FH var Steven Lennon öflugur og sannaði gildi sitt þegar hann skoraði. Þeir þurfa þó að finna leið til að koma honum meira í boltann og inn í spilið. Guðmann Þórisson var einnig sterkur í vörninni og á miðjunni var Þórir Jóhann duglegur og skoraði gott mark.

Hjá Gróttu var Ástbjörn Þórðarson gríðarlega vinnusamur og tók ófáa sprettina upp kantinn hægra megin. Valtyr Már Michaelsson ógnaði með fínum horn- og aukaspyrnum og Arnar Þór Helgason var nokkuð traustur í vörninni.

Liðsframmistaða Gróttu var í heildina góð og ýmislegt fyrir þá að byggja á eins og Ágúst þjálfari kom inná í viðtali eftir leik.

Hvað gekk illa?

Þrátt fyrir að FH hafi skorað tvö mörk eftir fínt spil þá er ýmislegt sem má slípa betur til í sóknarleiknum. Þeir eru oft of hægir og gefa boltann of auðveldlega frá sér á síðasta þriðjungi vallarins. Fremstu mennirnir þrír voru of lítið í boltanum á löngum köflum og liðið vantar tilfinnanlega framherja í hina svokölluð níu-stöðu.

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá eru bikarleikir núna á fimmtudag. FH fær þá 1.deildarlið Þórs í heimsókn en Grótta mætir Breiðablik á útivelli.

Í Pepsi Max-deildinni tekur Grótta næst á móti grönnum sínum í KR og FH fær Valsara í heimsókn.

Eiður Smári Guðjohnsen.vísir/skjáskot

Eiður Smári: Spiluðum með einn 37 ára frammi

„Það er það sem maður vill úr fótboltaleikjum, það eru þrjú stig. Mér fannst spilamennska okkar á köflum í fyrri hálfleik nógu góð til að vera tveimur mörkum yfir í hálfleik. Við náðum ekki að stíga á bensíngjöfina til að koma okkur í þægilegri stöðu,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen þjálfari FH eftir 2-1 sigurinn á Gróttu í Kaplakrika í dag.

„Við komum okkur undir pressu á okkar eigin mistökum, klaufalegar móttökur og gefum boltann of auðveldlega frá okkur. Heilt yfir nokkuð sáttur,“ bætti Eiður Smári við en í síðari hálfleik áttu FH-ingar oft í vök að verjast sprækum Gróttumönnum

Grótta jafnaði metin um miðjan síðari hálfleik eftir mark Þóris Jóhanns Helgasonar í upphafi leiks. Steven Lennon kom hins vegar FH yfir á ný aðeins tveimur mínútum eftir mark Gróttu.

„Þú vilt svara fyrir þig strax, það var mjög ánægjulegt og frábærlega vel spilað í mörkunum okkar. Við lendum á móti hávöxnu Gróttuliði og öll föst leikatriði ullu smá usla en við leystum það vel,“ en mark Gróttu kom eftir hornspyrnu.

„Við vissum að þeir taka stystu leiðina að markinu og vissum að þeir myndu koma með mikið af löngum boltum. Mér fannst við ráða ágætlega við það en maður hefði viljað vera tveimur mörkum yfir á einhverjum tímapunkti þarna í lokin en við náðum að klára það.“

Eftir markalausa jafnteflið gegn KA í síðustu umferð var mikilvægt fyrir FH að ná í þrjú stig gegn nýliðunum í dag.

„Hraðinn var meiri í aðgerðum heldur en í síðasta leik, það var meiri áræðni og meira tempó þegar við vorum að byggja upp sóknir. Það gaf okkur þessi tvö mörk. Grótta er þannig lið að þeir taka sér tíma í allar aðgerðir og þá er það undir okkur komið að koma með hraða og tempó í allar aðgerðir.

Eggert Gunnþór Jónsson gekk til liðs við FH á dögunum og ansi margir leikmenn hafa verið orðaðir við Hafnarfjarðarliðið á síðustu dögum.

„Það getur vel verið,“ sagði Eiður Smári þegar hann var spurður hvort það mætti eiga von á frekari styrkingu.

„Það eru örugglega fullt af nöfnum á borðinu en við einbeitum okkur að leikjunum eins og er og síðan sjáum við hvað gerist þegar glugginn opnar. Okkur fannst með Eggert Gunnþór það vera tækifæri sem við gátum ekki sleppt. Við hlökkum til að sjá hvað hann kemur með inn í liðið,“ bætti Eiður Smári við og viðurkenndi að framlínan væri sú staða sem menn væru helst að horfa í hvað varðar styrkingu.

„Í dag spiluðum við með einn 37 ára frammi sem er ekki náttúrulegur framherji þó hann hafi leyst það nokkuð vel, hvernig hann hreyfði sig og hvað hann er klókur að koma liðsfélögum sínum í stöður.“

„Um leið og Morten (Beck Andersen) er meiddur þá sjáum við vöntun þarna fram á við. En ég vil einbeita mér að þeim strákum sem eru hjá félaginu og ná því besta út úr þeim öllum.“

Morten Beck Andersen og Gunnar Nielsen voru báðir frá vegna meiðsla en ættu ekki að vera það lengi að sögn Eiðs Smára.

„Gunnar fékk aðeins í bakið á æfingu í gær og það var tekin ákvörðun að fyrst hann væri ekki 100% þá vildum við ekki taka áhættu. Morten hefur verið að glíma við nárameiðsl og við vildum gefa honum smá frið til að vinna sig úr því.“

Ágúst reynir og reynir að fá menn í Gróttu en það gengur ekkert.vísir/daníel

Ágúst: Eins og enginn vilji koma í Gróttu

Ágúst Gylfason þjálfari Gróttu fannst hans lið eiga meira skilið úr leiknum gegn FH í dag en Hafnfirðingar fóru þar með 2-1 sigur af hólmi.

„Þetta er sennilega besta frammistaða okkar í deildinni í sumar. Þetta er besti völlurinn á landinu, gaman að koma hingað og sýna úr hverju við erum gerðir. Svekkelsið er að þegar þú sýnir góða frammistöðu að fá ekki neitt út úr henni. Ég var brjálaður inni í klefa, menn voru sáttir með frammistöðuna en ég er ósáttur að fá ekkert út úr þessu.“ Grótta setti FH-inga oft undir ansi mikla pressu og undir lokin var einstefna að marki heimamanna.

„Við getum skoðað þennan leik og tekið ansi margt út úr honum fyrir framhaldið. En stigasöfnunin var núll stig í dag, því miður. Með svona frammistöðu eigum við að taka þrjá punkta og ekkert annað og það er það sem svíður og er svekkjandi.“

„Við erum í leit að stigum og það er það sem telur í þessu. Við þurfum að koma okkur upp töfluna en ég tek það ekki af strákunum að þetta var frábær frammistaða og frábær stuðningur. Það var eins og við værum á heimavelli,“ sagði Ágúst en gestirnir höfðu yfirburði hvað varðar stuðning í stúkunni í kvöld.

Eftir að Grótta jafnaði metin í síðari hálfleik tók það heimamenn aðeins tvær mínútur að komast yfir á nýjan leik.

„Smá einbeitingarleysi og mistök sem gerir það að verkum að þeir setja okkur fljótt aftur niður á jörðina. Markið sem við skorum var óheppilegt fyrir FH-inga en að mínu viti sanngjarnt. Eftir að þeir komast í 2-1 lágum við á þeim en náðum ekki að jafna.“

Aðspurður hvort Grótta stefndi á að styrka liðið í félagaskiptaglugganum kom Ágúst með ansi áhugavert svar um hversu erfitt það væri að fá leikmenn á Seltjarnarnesið.

„Ég er ánægður með hópinn og við erum að gera þetta vel með góðan liðsanda og slíkt. En það er eins og enginn vilji koma í Gróttu. Það er okkar hausverkur og við erum með okkar stráka í þessu og byggjum á því.“

Hafið þið verið að reyna að fá menn?

„Já, við höfum reynt ýmislegt síðan í janúar og fengið einn eða tvo leikmenn eftir það. Það er eins og Grótta sé eitthvað að fæla frá. Það er frábær aðstoða, gott þjálfarateymi og aðstaðan gríðarlega flott. Ég skil ekki alveg þessa hræðslu að koma í Gróttu,“ sagði Ágúst að lokum.

Björn Daníel í leik með FH.

Björn Daníel: Ekkert sérstök frammistaða

„Ekkert sérstök frammistaða. Mér fannst við oft á tíðum komast í fínar stöður en gefum boltann frá okkur allt of auðveldlega og fáum á okkur skyndisóknir,“ sagði fyrirliði FH, Björn Daníel Sverrisson, í viðtali við Vísi eftir leikinn gegn Gróttu í kvöld.

„Þeir voru ekki að skapa mikið þegar þeir voru að byggja upp sóknir heldur var mesta hættan þegar þeir fengu föst leikatriði og skyndisóknir. Við vorum kærulausir á síðasta þriðjungnum og það þarf að bæta. Við verðum hins vegar að líta á það jákvæða að við unnum leikinn og það er mikilvægt.“

FH-ingar lentu oft á tíðum í vandræðum gegn hávöxnu Gróttuliði í föstum leikatriðum og mark gestanna kom einnig eftir horn.

„Ég held að hann hafi verið 40 cm stærri sem ég var að dekka í teignum. Hann var í barning við mig og Daða þegar markið kemur en mér finnst þeir bara sprækir, mikið af ungum strákum og geta hlaupið mikið. Þeir gáfu okkur alvöru leik og það má hrósa þeim fyrir það.“

Undir lokin var talsverð pressa að marki FH og það vantaði ekkert sérlega mikið uppá hjá gestunum til að jafna metin.

„Daði var öruggur í leiknum, þetta var klaufamark og þeir voru ekki beint að skapa í opnum leik. Hættan var í föstum leikatriðum og mér fannst við ráða oft ágætlega við það.“

„Virkilega mikilvægt að vinna þennan leik. Það er mikilvægt að vinna leiki til að rífa sig frá einhverjum pakka og koma sér nær hinum pakkanum,“ sagði Björn Daníel að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira