Íslenski boltinn

Rúrik ekki á leið í Pepsi Max deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúrik í leiknum gegn Argentínu á HM 2018.
Rúrik í leiknum gegn Argentínu á HM 2018. Vísir/Vilhelm

Sögusagnir þess efnis að Rúrik Gíslason gæti verið á leið í Pepsi Max deildina virðast ekki á rökum reistar. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Rúriks, tók fyrir þær í viðtali við RÚV í dag. Sagði hann að það væru einkar litlar líkur á því að Rúrik myndi spila á Íslandi í sumar.

Rúrik hefur nú þegar hafnað ýmsum tilboðum erlendis frá og reikna þeir með því að hann fái enn fleiri á sitt borð á næstu dögum. Það mun skýrast á næstu vikum hvar Rúrik mun spila næstu misserin en litlar sem engar líkur eru á því að það verði hér á landi.

Samkvæmt orðinu á götunni hefur Rúrik fengið tilboð frá bæði Víking og FH en ku ekki hafa mikinn áhuga á spila hérlendis að svo stöddu.

Rúrik er 32 ára gamall og hefur leikið sem atvinnumaður frá árinu 2005. Hefur hann leikið allan sinn atvinnumannaferil í Danmörku og Þýskalandi. Rúrik var einnig á mála hjá Anderlecht í Belgíu og Charlton Athletic í Englandi án þess þó að leika fyrir aðallið félaganna.

Þá á Rúrik 52 A-landsleiki að baki sem og fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. Var hann í leikmannahópi Íslands á HM í Rússlandi. Kom hann inn af bekknum gegn Argentínu og var svo í byrjunarliðinu gegn Nígeríu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×