Íslenski boltinn

Ingvar mætir sínu gamla félagi: Eru klárlega liðið sem við þurfum að stoppa

Ísak Hallmundarson skrifar

Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, mætir sínu gamla félagi Stjörnunni í Pepsi Max deild karla í kvöld.

Ingvar lék með Stjörnunni árin 2011-2014 en hann gekk til liðs við Víkinga á þessu ári eftir sex ár í atvinnumennsku.

„Þetta verður mjög spennandi, þeir hafa verið mjög heitir í byrjun móts og eru klárlega liðið sem við þurfum að stoppa. Við þurfum að sýna góðan leik og ná í þrjú stig ef við ætlum að vera með í baráttunni,“ sagði Ingvar, en Víkingur er með 12 stig í fimmta sæti á meðan Stjarnan er með 13 stig í fjórða sæti. Stjörnumenn hafa þó spilað þremur leikjum minna en Víkingur.

„Þetta er ótrúlega jöfn deild, það sýnir sig bara með úrslitin í síðustu umferðum. Nokkrir sigurleikir í röð skila manni upp í topp, sama gerist ef þú tapar stigum, þá dregstu aftur úr. Þetta er stutt mót og við þurfum að halda áfram því það eru mikil gæði í okkar liði.“

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á slaginu 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×