Íslenski boltinn

Framarar völtuðu yfir Þórsara og Gaui Þórðar náði í sinn fyrsta sigur

Ísak Hallmundarson skrifar
Alexander Már kom inn á sem varamaður og skoraði tvö mörk.
Alexander Már kom inn á sem varamaður og skoraði tvö mörk. vísir/daníel

Tveimur leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla í fótbolta. Fram burstaði Þór í Safamýrinni og Guðjón Þórðarson stýrði Ólafsvíkingum til sigurs.

Þórsarar komust yfir í Safamýrinni á 11. mínútu með marki frá Izaro Abella Sanchez. Það dugði skammt, Fred Saraiva jafnaði fyrir Fram á 16. mínútu og Albert Hafsteinsson kom Frömurum síðan yfir á 23. mínútu.

Aðeins mínútu síðar skoraði Fred annað mark sitt í leiknum og kom heimamönnum í 3-1 og var staðan þannig í hálfleik.

Haraldur Einar Ásgrímsson bætti við marki fyrir Framara snemma seinni hálfleiks og á 66. mínútu fékk Alvaro Montejo, leikmaður Þórs, rauða spjaldið. Varamaðurinn Alexander Már Þorláksson bætti við tveimur mörkum fyrir Fram og niðurstaðan 6-1 stórsigur Reykjavíkurliðsins. Framarar komnir í 2. sæti, í bili í það minnsta en Leiknir R. á leik til góða.

Víkingur Ólafsvík sigraði þá Leikni Fáskrúðsfirði 3-0, en þetta var fyrsti heimaleikur og fyrsti sigur Guðjóns Þórðarsonar með liðið. Víkingar í 9. sæti með níu stig. 

Stöðuna í deildinni má skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×