Erlent

Trudeau glímir við enn eitt hneykslismálið

Kjartan Kjartansson skrifar
Trudeau með eiginkonu sinni Sophie. Hún hefur starfað sem sendiherra fyrir góðgerðasamtök sem ríkisstjórn Trudeau veitti milljarðasamning. Trudeau hefur sjálfur talað á viðburðum samtakanna.
Trudeau með eiginkonu sinni Sophie. Hún hefur starfað sem sendiherra fyrir góðgerðasamtök sem ríkisstjórn Trudeau veitti milljarðasamning. Trudeau hefur sjálfur talað á viðburðum samtakanna. Vísir/EPA

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og fjármálaráðherra hans sæta nú harðri gagnrýni eftir að í ljós kom að góðgerðasamtök sem þeir veittu milljarðasamning hafa greitt skyldmennum þeirra beggja háar fjárhæðir undanfarin ár. Stjórnarandstaðan krefst afsagnar fjármálaráðherrans.

Ríkisstjórn Trudeau veitti góðgerðasamtökunum WE Charity samning um að sjá um útdeilingu námslána sem eru hluti af viðbrögðum hennar við kórónuveirufaraldrinum. Samningurinn er talinn færa samtökunum um 43 milljónir kanadískra dollara, jafnvirði tæpra 4,4 milljarða íslenskra króna.

Í framhaldinu var upplýst að samtökin hefðu greitt ættingjum Trudeau og Bills Morneau, fjármálaráðherra, hundruð þúsunda dollara, jafnvirði tuga milljóna íslenskra króna, í þóknanir fyrir fyrirlestra og ferðakostnað. Móðir Trudeau og bróður hafa fengið greiðslur frá samtökunum og eiginkona hans Sophie hefur unnið sem sendiherra fyrir þau.

Málið hefur vakið reiði í Kanada og krefst stjórnarandstaðan þess að Morneau segi af sér. Siðanefnd rannsakar nú bæði Trudeau og Morneau, að sögn bandaríska blaðsins Politico.

Trudeau hefur þegar staðið af sér nokkur hneykslismál. Siðanefnd taldi Trudeau hafa brotið lög um hagsmunaárekstra þegar hann og aðstoðarmenn hans þrýsti ítrekað á þáverandi dómsmálaráðherra að gera sátt við SNC-Lavalin, stórt verktaka- og verkfræðifyrirtæki, sem var sakað um spillingu í fyrra.

Í kosningabaráttunni í fyrra birtust myndir af Trudeau í grímubúningi þar sem hann hafði litað andlit sitt dökkt fyrir um tuttugu árum. Þá taldi siðanefnd hann sekan um frekari siðabrot árið 2018 þegar hann þáði boðsferð fyrir sig og fjölskyldu sína til einkaeyju auðkýfings á Bahamaeyjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×