Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - KR 0-0 | Dramatík í markalausu jafntefli á Akureyri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
KR-ingar sóttu stig til Akureyrar í dag.
KR-ingar sóttu stig til Akureyrar í dag. Vísir/Daníel

KA-menn fengu Íslandsmeistara KR í heimsókn í 9.umferð Pepsi-Max deildar karla á Akureyri í dag.

KR-ingar urðu fyrir áfalli strax í upphitun þegar Aron Bjarki Jósepsson meiddist og kom Arnþór Ingi Kristinsson í hans stað í miðja vörnina við hlið Finns Tómasar.

Síðustu viðureignir þessara liða hafa verið afar tilþrifalitlar og á því varð engin breyting í dag, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Það gerðist nánast ekkert en Atli Sigurjónsson komst næst því að skora með skoti úr hornspyrnu eftir hálftíma leik. Kristijan Jajalo í marki KA sá við honum og kýldi boltann frá.

Síðari hálfleikurinn var jafn tíðindalítill allt þar til á síðustu 10 mínútum leiksins. Þá varð svo sannarlega fjör. KR-ingar komust reyndar nálægt því að ná forystunni eftir 71.mínútu þegar samherjarnir Jajalo og Hrannar Björn skullu saman. Boltinn féll í kjölfarið fyrir fætur Óskars Arnar Haukssonar sem setti boltann á einhvern óskiljanlegan hátt lengst yfir opið markið.

Á 82.mínútu gera KR-ingar skelfileg mistök í eigin vítateig þegar Kristinn Jónsson leggur boltann til baka á Beiti Ólafsson sem hittir boltann vægast sagt illa og beint fyrir fætur Guðmundar Steins Hafsteinssonar sem skorar í autt markið. Eðlilega braust út mikill fögnuður meðal heimamanna en í honum miðjum lyfti aðstoðardómarinn flaggi sínu upp til merkis um rangstöðu.

Ívar Orri Kristjánsson dæmdi markið því af og voru KA-menn hreint æfir yfir dómnum en útskýringarnar sem leikmenn og þjálfarar fengu frá dómarateyminu má sjá í viðtölum neðar í umfjölluninni.

Strax í kjölfarið af rangstöðunni geystust KR-ingar í sókn þar sem Atli Sigurjónsson fór illa með varnarmenn KA áður en hann hleypti skoti af á markið en Jajalo varði frábærlega í horn.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma var vítaspyrna dæmd þegar Kennie Chopart braut klaufalega á varamanninum Sveini Margeiri Haukssyni. Guðmundur Steinn steig á vítapunktinn en Beitir sá við honum og varði vel. Lokatölur því 0-0.

Afhverju varð jafntefli?

KR-ingum tókst ekki að finna neinar afgerandi lausnir á öflugum varnarleik heimamanna sem lágu mjög aftarlega stærstan hluta leiksins og leyfðu Íslandsmeisturunum að hafa boltann. Boltinn gekk ekki mjög hratt enda aðstæður á Akureyri erfiðar eins og alþjóð veit.

Á lokamínútum leiksins fá hins vegar bæði lið færi til að gera út um leikinn og KA-menn telja sig klárlega hafa skorað löglegt mark sem hefði mjög líklega skilað þeim sigri.

Bestu menn vallarins?

Atli Sigurjónsson hélt uppteknum hætti í liði Íslandsmeistaranna og var þeirra hættulegasti maður fram á við í annars heilt yfir bragðdaufum leik. Beitir verður líka að fá sitt pláss hér fyrir að verja vítaspyrnu á ögurstundu eftir að hafa verið áhorfandi að leiknum langstærstan hluta hans. Vissulega gerði hann slæm mistök sem leiddu til rangstöðumarks KA-manna en dómarateymið kom honum til bjargar þar.

Sóknarþungi KA-manna var lítill en í varnarlínunni voru Brynjar Ingi Bjarnason og Hrannar Björn Steingrímsson sérstaklega öflugir. Allir leikmenn KA eiga skilið hrós fyrir vinnusemi og skipulagðan varnarleik.

Hvað gekk illa?

Gefum Guðmundi Steini Hafsteinssyni þennan lið í dag. Kemur inn af bekknum á 73.mínútu og skorar mark sem leit út fyrir að vera löglegt um tíu mínútum síðar. Fagnar því eðlilega af fítonskrafti en það er svo dæmt af. Fer á vítapunktinn skömmu síðar og brennir af.

Yfirgefur svo völlinn í uppbótartíma með sárabindi um höfuðið eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg.

Hvað er næst?

Mjólkurbikar. Bæði lið taka þátt í 16-liða úrslitum bikarsins í vikunni. Á meðan KA-menn fá ÍBV í heimsókn leika KR-ingar gegn Fjölni að Meistaravöllum.

Beitir: Ég veit ekki á hvað var dæmt

Beitir Ólafsson, markvörður KR-inga var allt í öllu á lokamínútum og því lág beinast við að spyrja hann út í markið sem dæmt var af.

„Ég veit ekki á hvað var dæmt. Kiddi (Kristinn Jónsson) fékk engin skilaboð um hvað hann ætti að gera og leggur boltann til baka á mig. Hann boppar aðeins illa og ég hitti hann illa. Í augnablikinu á eftir þegar ég er að fara að reyna að verja frá Guðmundi Stein rekst ég í KA-mann held ég. Ég hleyp á hann eða hann hleypur á mig og það getur vel verið að hann hafi dæmt brot á það. Ég veit það ekki,“ segir Beitir.

Nokkrum mínútum síðar var Beitir aftur í sviðsljósinu þegar hann varði vítaspyrnu frá Guðmundi Stein. Afar viðburðaríkar lokamínútur eftir að Beitir hafði verið í hlutverki áhorfanda stærstan hluta leiksins.

„Ég sé við honum í vítaspyrnunni. Sem betur fer var þessi hasar þarna á undan. Þess vegna var maður orðinn smá heitur og tilfinningin ræður ríkjum í vítaspyrnum. Ég fór í rétt horn og náði að verja sem er bara gott mál.“

Almarr: Vona dómaranna vegna að þetta hafi verið rétt hjá þeim

„Útskýringin sem ég fæ er sú að Ásgeir hafi verið rangstæður þegar Gummi (Guðmundur Steinn) skýtur á markið. Svo heyrði ég hérna eftir á að Ásgeir eigi að hafa farið í hlaupalínuna fyrir Beiti eða eitthvað þannig. Ég þarf að sjá þetta aftur til að geta metið þetta því þetta var mjög skrýtið,“ sagði Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, í leikslok um markið sem dæmt var af.

„Ég sá það ekki í þessu atviki að þetta hafi verið með þessum hætti en við vonum bara dómaranna vegna að þetta hafi verið rétt hjá þeim.“

Almarr kom inn af varamannabekknum í leikhléi en hvernig horfði leikurinn við honum?

„Stál í stál. Þetta eru tvö lið sem eru góð að verjast og liðin áttu erfitt með að opna hvort annað. Mér fannst við líklegri í seinni hálfleik á meðan þeir voru ekki að gera neitt brjálæðislega mikið. Þetta var örugglega ekkert æðislegur leikur að horfa á,“ sagði Almarr en KA-menn eru með markatöluna 1-0 í síðustu þremur leikjum síðan Arnar Grétarsson tók við liðinu

„Þriðji leikurinn í röð sem við höldum markinu okkar hreinu og við erum mjög þéttir. Við þurfum augljóslega að skerpa á sóknarleiknum. Við viljum skora fleiri mörk,“ sagði fyrirliði KA-manna að lokum.

Rúnar Kristinssonstöð 2

Rúnar: Ekki frábær fótboltaleikur

„Þetta var ekki frábær fótboltaleikur. Aðstæður bjóða ekki upp á það og bæði lið verða að taka mið af því. Það var frábært skipulag á KA liðinu og Addi (Arnar Grétarsson) er búinn að koma inn með frábæra hluti í þetta lið. Þetta er gott lið með fullt af góðum leikmönnum og það er annar bragur á því en var í upphafi móts. Við virðum andstæðinginn,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í leikslok.

Leikir KR og KA á undanförnum árum hafa verið afar lokaðir en í fyrra gerðu liðin markalaust jafntefli á Akureyri og KR marði 1-0 sigur að Meistaravöllum í tíðindalitlum leik.

„Vallaraðstæður hér bjóða ekki upp á fótbolta eins og við viljum spila og hugsanlega gildir það sama fyrir KA. Það er mjög erfitt. Liðin ná ekki að spila fótboltann sem þau vilja líklega spila vegna aðstæðna.“

„Við megum ekki bara kenna vellinum um. Liðin verða líka að sýna smá gæði því við höfum þau í báðum liðum en menn verða kannski að þora aðeins meiru og vera aðeins einbeittari með boltann en það bara heppnaðist ekki í dag,“ sagði Rúnar.

Eins og kom fram á Vísi í morgun vill sóknarmaðurinn Tobias Thomsen komast heim til Danmerkur sem fyrst en hann kom inn af bekknum í dag.

„Að öllu leyti rétt sem hann segir. Tobias er með heimþrá og vill komast heim. Það er ekki búið að tala um að hann fari í næsta glugga heldur eftir tímabilið. Ef hann ætlar að fá að fara í glugganum þurfum við að sjá hvort við getum fengið leikmann í hans stað og þá getum við leyft honum að fara. Hann stendur sig vel og ætlar að fórna sér fyrir okkur á meðan hann er hérna,“ sagði Rúnar.

Arnar: Skil ekki hvernig hann getur flaggað á þetta

„Fjórði dómarinn segir að Ásgeir hafi staðið í vegi fyrir Beiti þegar Guðmundur er að skjóta í markið. Mér finnst það ekki halda vatni. Beitir kiksar boltann til Guðmundar og mér fannst Guðmundur bara vera á markteig og markið autt. Ég skil ekki hvernig hann getur flaggað á þetta,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, um atganginn á lokamínútum leiksins.

„Menn eiga ekki að klikka á þessu. Ég get skilið þegar menn eru að klikka á tæpum rangstöðum. Það er erfitt en þetta er eitthvað sem menn eiga að vita að er ekki rangstæða. Ég hefði viljað að dómari leiksins hefði áttað sig á hlutunum og að hann hefði farið til aðstoðardómarans og rætt þetta við hann. Það er svolítið svekkjandi og þetta er blóðugt,“ sagði Arnar sem var þó ekki á því að leita skýringa hjá dómarateyminu í leikslok.

„Ég legg það ekki í vana minn að vera að hjóla í dómarana eftir leik. Það hefur ekkert upp á sig. Þetta er búið og ég veit að þeir eru að reyna að gera sitt besta. Það er alltaf sárt þegar menn gera stór mistök sem kosta.“

En var Arnar sáttur með leikinn hjá sínu liði?

„Við viljum vinna leiki á heimavelli. Uppleggið var að KR myndi fá að vera meira með boltann og mér fannst þeir ekki skapa sér neitt af viti. Það er ekki fyrr en við skorum þetta mark að þá keyra þeir upp og Atli (Sigurjónsson) fær örugglega þeirra besta færi. Það hefði verið salt í sárið ef þeir hefðu skorað þar.“

„Varnarleikurinn var mjög góður. Við þurfum að fara að skapa aðeins meira fram á við en við komumst í fínar stöður, skorum mark sem við teljum löglegt og fáum vítaspyrnu svo þetta ætti að duga til að klára þetta,“ sagði Arnar sem hefur fengið 5 stig úr fyrstu þremur leikjum sínum með KA liðið.

„Ég er nokkuð ánægður. Í dag erum við að spila við besta lið landsins með Rúna (Rúnar Kristinsson) við stjórnvölin sem er líklega besti þjálfarinn sem við eigum á Íslandi í dag. Að sækja stig í dag og í Krikanum er fínt þó við hefðum viljað fá meira út úr þessum leikjum. Vonandi kemur það í næstu leikjum,“ sagði Arnar Grétarsson. 

Arnar Grétarsson.vísir/stefán

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira