Umfjöllun og viðtöl: HK - Breiða­blik 1-0 | HK-ingar héldu montréttinum

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Börkur og Brynjólfur Andersen í baráttunni í leik kvöldsins.
Ásgeir Börkur og Brynjólfur Andersen í baráttunni í leik kvöldsins. Vísir/Daniel Thor

HK vann Breiðablik 1-0 í Kópavogsslagnum í Kórnum í kvöld með marki Birnis Snæs Ingasonar eftir skelfileg mistök Antons Ara Einarssonar í marki Breiðabliks í fyrri hálfleik. HK fékk þar með sín fyrstu stig á heimavelli í sumar.

HK er nú með átta stig í 9. sæti, þremur stigum frá fallsæti, en liðið hafði tapað fyrstu þremur heimaleikjum sínum í Pepsi Max-deildinni. Breiðablik er með 11 stig í 5. sæti og hefur nú ekki unnið í fimm síðustu deildarleikjum sínum. HK fékk fjögur stig gegn Breiðabliki í fyrra og heldur montréttinum í Kópavoginum.

Birnir Snær nýtti sér skelfileg mistök Antons

HK-ingar vörðust aftarlega frá upphafi leiks og leyfðu Blikum að vera með boltann en voru svo tilbúnir að sækja hratt fram. Blikum gekk illa í fyrri hálfleik að opna vörn heimamanna en Thomas Mikkelsen var þó nálægt því að sleppa einn gegn markverði á 19. mínútu, í baráttu við Leif Andra Leifsson. Daninn var hins vegar dæmdur brotlegur, að því er virtist réttilega, og var hundóánægður með það.

Strax í kjölfarið komst HK yfir eftir mistök Antons Ara Einarssonar, markvarðar Blika, sem var of lengi með boltann á tánum svo að Jón Arnar Barðdal náði að renna sér og trufla sendinguna. Boltinn barst til Birnis Snæs sem að átti þó eftir að gera helling, en hann lék glæsilega á Damir Muminovic og skoraði svo framhjá Antoni.

HK-ingar voru duglegir, skipulagðir og fastir fyrir, en Blikar sköpuðu þó stundum hættu og þá helst í gegnum Höskuld Gunnlaugsson hægra megin í teignum. Þeir fengu fjölda hornspyrna en þær nýttust afar illa, á meðan að minnstu munaði að Arnþór Ari Atlason skoraði eftir hornspyrnu HK undir lok fyrri hálfleiksins.

Í seinni hálfleik lágu HK-ingar hreinlega í vörn og voru ófeimnir við að hreinsa í burtu bara til að fá nokkrar sekúndur til að varpa öndinni. Þeir vörðust áfram af mikilli baráttugleði og sýndu aftur karakterinn sem skilaði þeim svo góðu gengi á síðasta tímabili, og sigrinum gegn KR í Vesturbænum í sumar. Blikar bönkuðu oft á dyrnar en voru jafnan stöðvaðir á síðustu stundu. Í uppbótartíma voru heimamenn í hálfgerðri nauðvörn og munaði minnstu að Höskuldur Gunnlaugsson næði að jafna metin en hann skaut rétt yfir eftir laglega tilburði.

Af hverju vann HK?

HK-ingar sýndu gríðarlega baráttugleði, héldu skipulaginu vel allan leikinn og gáfu ekki of mörg færi á sér. Sigurmarkið fengu þeir með mikilli hjálp Antons Ara og það var ljóst að þeir þyrftu að nýta færin vel í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Ásgeir Börkur fór fyrir sínum mönnum með gríðarlegri vinnusemi og baráttu á miðjunni, en aðrir leikmenn HK léku í sama anda og erfitt að taka menn út fyrir sviga í þessum liðssigri. Ívar Örn átti nokkrar hættulegar fyrirgjafir og Sigurður Hrannar átti sinn langbesta leik síðan gegn KR. Höskuldur var ógnandi fyrir Blika og þeir voru mun hættulegri eftir að Gísli Eyjólfsson kom inn á eftir meiðsli.

Hvað gekk illa?

Það var nánast orðið fyndið að fylgjast með hornspyrnum Blika í fyrri hálfleik því Davíð Ingvarsson spyrnti boltanum ítrekað yfir þéttskipaðan vítateiginn, og rakleitt aftur fyrir endamörk. Að lokum sá Höskuldur fyrirliði sig tilneyddan til að taka við af honum. Spilið hefði mátt ganga hraðar hjá gestunum og það vantaði eitthvað upp á hugmyndaauðgina til að brjóta upp varnarmúr HK-inga, þó að oft mætti litlu muna.

Hvað gerist næst?

HK sækir Fylki heim í Árbæinn á mánudaginn og fær svo 1. deildarlið Aftureldingar í heimsókn í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins næsta fimmtudag. Breiðablik tekur á móti ÍA á sunnudagskvöld og mætir svo Gróttu í bikarnum eftir viku.

Brynjar Björn: Stundum var þetta ekki fallegt

„Lykillinn að þessum sigri var hrikalega mikil vinnusemi og hugarfar. Við þurftum að fórna okkur í alla bolta, stundum var þetta ekki fallegt, en við settum þetta upp þannig að við ætluðum okkur þrjú stig á heimavelli í kvöld og náðum í þau,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK.

„Þetta var svolítið fyrirsjáanlegt. Blikarnir voru mikið með boltann, spiluðu vel inn í miðsvæðið og ógnuðu svo á bakvið úti á köntunum. Þeir voru hættulegir og við þurftum að hafa okkur alla við til að verjast þeirra sóknum, en við fengum eitt gott færi og nýttum það vel,“ sagði Brynjar.

HK skoraði mark sitt eftir að Jón Arnar truflaði sendingu Antons Ara í marki Blika:

„Það er eitthvað lið á móti þér, það vill spila boltanum út, og ef að við myndum fá tækifæri til að setja smápressu á þá hátt á vellinum þá vorum við meðvitaðir um að koma okkur í góða stöðu og reyna að refsa þeim,“ sagði Brynjar.

Sigurinn var langþráður fyrir HK eftir þrjá tapleiki á heimavelli:

„Uppsetningin á leiknum var sú að það skipti ekki máli á móti hverjum við værum að spila. Þetta hefði getað verið gegn hverjum sem er. Við vorum ekki búnir að fá góð úrslit hér í Kórnum og vantaði þrjú stig. Þau komu í dag og það vildi bara svo til að það var gegn Blikum. Þetta er spurning um smástolt hérna í bænum og við erum með yfirhöndina, ennþá á þessu tímabili alla vega.“

Óskar Hrafn: Áttum ekkert skilið

„Við áttum ekkert skilið í þessum leik,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.

„Við urðum fórnarlömb lélegra ákvarðana og þess að boltinn gekk ekki nægilega hratt. Þegar svo er þá færðu ekki mikið fyrir að vera með boltann, ef þú nærð ekki að opna andstæðingana og skapa þér færi,“ sagði Óskar Hrafn, sem var reyndar ekkert æstur í að mæta í viðtal eftir fimmta leikinn í röð án sigurs. Hann hafði ekkert út á varnarsinnað upplegg HK-inga að setja:

„Þeir börðust eins og ljón og stóðu sig frábærlega vel. Ég get ekki gert neitt annað en að bera virðingu fyrir frammistöðu þeirra í kvöld. Hvort sem að það gíraði þá eitthvað sérstaklega upp eða ekki að þetta væri slagur tveggja Kópavogsliða, ég átta mig ekki á því, þá er HK-liðið þekkt fyrir að gefa allt í sína leiki og henda sér fyrir hluti. Það var ekki eitthvað sem átti að koma okkur á óvart,“ sagði Óskar.

Eftir tapið gegn Val í síðustu umferð talaði Óskar um „þjófnað“ en hann var á allt öðru máli í kvöld.

„Við áttum ekki meira skilið. Frammistaða okkar á milli teiganna var svo sem þokkaleg en frammistaðan þegar við fáum á okkur markið var ekki boðleg, og við sköpuðum okkur ekki nægilega mikið af færum.“

Ekkert minni karakterar en aðrir leikmenn í þessari deild

Aðspurður hvort það vantaði sterkari karaktera í leikmannahóp Breiðabliks til að koma liðinu út úr ógöngum síðustu vikna sagði Óskar svo ekki vera.

„Nei. Ég ætla ekki að vera dómstóll yfir karakter manna. Ég hef ekki upplifað annað en að þessir drengir séu tilbúnir að leggja sig 100 prósent fram, séu sterkir karakterar og ekkert minni karakterar en aðrir leikmenn í þessari deild. Þessi deild er full af góðum leikmönnum sem að hafa mikinn metnað. Það er örugglega hægt að tala um það þegar það gengur illa að það vanti karakter, en svo þegar vel gengur að þá er sú umræða ekki til staðar. En ég kvarta ekki yfir hópnum sem ég er með.“

Og Óskar segir gengið að undanförnu ekki farið að setja mark sitt á spilamennsku Blika:

„Ég upplifi það alla vega ekki að þetta sé farið að hafa áhrif. Vissulega eru þetta nokkrir leikir sem við höfum ekki sigrað enda kannski ekki mikill tími til að velta sér upp úr því og fara undir sængina þegar þú tapar, heldur þarftu að gíra þig upp, rísa upp og gera þig kláran fyrir næsta leik. Það er nú eitthvað sem segir mér að leiðin liggi upp á við úr þessu. Það eina sem við getum gert er að mæta kolbrjálaðir á móti Skagamönnum og vera ákveðnir í að gera betur.“

Viktor Karl Einarsson lék ekki með Breiðabliki í kvöld eftir að hafa meiðst á æfingu í gær. Aðspurður sagði Óskar óvíst hve alvarleg meiðsli hans væru.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira