Erlent

Sendir alríkislögreglumenn til tveggja „stjórnlausra“ borga

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Getty/Jabin Botsford

Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að sveitir alríkislögreglumanna verði sendir til borganna Chicago og Albuquerque, þvert á óskir ríkisstjóra og borgarstjóra.

Forsetinn hefur undanfarið sent löggæslu fulltrúa alríkisstjórnarinnar til borga sem eiga það sameiginlegt að vera undir stjórn demókrata með það að markmiði að kveða niður glæpi og mótmæli. Hefur forsetinn sagt borgirnar stjórnlausar.

Forsetinn hélt því áfram á blaðamannafundi í dag og sagði aftur að borgirnar væru stjórnlausar og kenndi róttækum vinstri mönnum um hvernig staðan væri.

Trump sagði að undanfarnar vikur hefðu verið gerðar tilraunir til að draga úr löggæslu landsins og sakaði hann hreyfingarnar sem staðið hafa að baki því um að stuðla að aukningu á skotárásum, morðum og hryllilegum ofbeldisglæpum.

„Blóðsúthellingunum þarf að linna. Blóðsúthellingunum mun linna,“ sagði forsetinn.

AP segir að Trump forseti horfi til stöðunnar sem mögulegs kosningamáls eftir að hagkerfi Bandaríkjanna beið hnekki vegna kórónuveirunnar. Talið er víst að Trump hugðist gera árangur í efnahagsmálum að sínu helsta kosningamáli í baráttunni fyrir endurkjöri.

Nú hefur forsetinn hins vegar lýst því yfir að ef Joe Biden verði kjörinn í nóvember fari landið til helvítis í ofbeldisöldu.

Lori Lightfoot, borgarstjóri Chicago, kvaðst í fyrstu vera mótfallin því að alríkislögreglumenn yrðu sendir til borgarinnar. Seinna greindi hún þó frá því að hún hafi rætt við yfirvöld og að samkomulag hefði náðst.

„Ég hefur verið mjög skýr um að við tökum vel í samvinnu en ekki einræði. Við samþykkjum ekki handtökur þvert á stjórnarskrá og frelsissviptingar íbúa borgarinnar,“ sagði Lightfoot.

Öldungadeildarþingmaðurinn Martin Heinrich frá Nýju Mexíkó var gagnrýninn á aðgerðir forsetans og kallaði eftir því að lögreglustjórinn í Bernalillosýslu Nýju Mexíkó, þar sem Albuquerque er að finna, segði af sér.

„Í stað þess að vinna með lögregluyfirvöldum í Albuquerque hefur lögreglustjórinn veitt stormsveitum forsetans inngöngu í borgina,“ sagði Heinrich.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×