Íslenski boltinn

Leiknir R. á toppinn eftir sigur á læri­­sveinum Gaua Þórðar | Saman­tekt kvöldsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði fyrir Leikni í kvöld.
Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði fyrir Leikni í kvöld. mynd/leiknir

Alls fóru fjórir leikir fram í Lengjudeild karla í kvöld og einn í Lengjudeild kvenna. Lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar máttu þola stórt tap í Breiðholti og Keflavík bjargaði stigi undir lokin gegn Leikni Fáskrúðsfirði.

Kvennamegin gerðu Afturelding og Keflavík 1-1 jafntefli.

Guðjón Þórðarson fékk martraðarbyrjun er Víkingur Ólafsvík heimsótti Leikni Reykjavík í Breiðholtið. Lokatölur 5-0 fyrir Leikni þar sem þeir Vuk Oskar Dimitrijevic, Sævar Atli Magnússon, Gyrðir Guðbrandsson, Sólon Breki Leifsson og Arnór Ingi Kristinsson deildu mörkunum bróðurlega á milli sín.

Með sigrinum fara Leiknismenn á topp deildarinnar með 16 stig þegar sjö umferðum er lokið. Víkingar frá Ólafsvík eru nú dottnir niður í 10. sæti deildarinnar.

Vestri gerði 3-3 jafntefli við topplið ÍBV á Ísafirði eftir að lenda 2-0 undir. Nacho Gil skoraði þrennu fyrir heimamenn, þar af tvö úr vítum. Jose Enrique Seoane Vergara, Víðir Þorvarðarson og Tómas Bent Magnússon skoruðu mörk ÍBV.

Vestri er því í 6. sætinu á meðan Eyjamenn falla úr toppsætinu niður í annað sæti deildarinnar.

Sæþór Viðarsson hélt hann hefði tryggt Leikni Fáskrúðsfirði sigur gegn Keflavík en Frans Elvarsson bjargaði stigi fyrir gestina með marki á 93. mínútu. Fáskrúðsfirðingar fara upp í 9. sæti eftir jafntefli dagsins en Keflavík er í 3. sæti með jafn mörg stig og Fram en betri markatölu.

Þór Akureyri lagði svo Magna Grenivík með þremur mörkum gegn Jónas Björgvin Sigur-bergsson, Alvaro Montejo Calleja og Izaro Abella Sanchez skoruðu mörk Þórsara. Þórsarar fara upp í 5. sæti á meðan Magnamenn sitja sem fastast á botni deildarinnar.

Þá gerðu Afturelding og Keflavík 1-1 jafntefli í Lengjudeild kvenna. Dröfn Einarsdóttir kom gestunum yfir strax á 4. mínútu en Alda Ólafsdóttir jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks og þar við sat.

Keflavík er í 2. sæti með 14 stig á meðan Afturelding er í 4. sæti með átta stig.

Markaskorarar fengnir af Úrslit.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.