Erlent

Fjöl­skylda sem kom með flugi til Fær­eyja reyndist smituð

Sylvía Hall skrifar
Frá Vágum í Færeyjum.
Frá Vágum í Færeyjum. Vísir/Getty

Erlend fjölskylda sem kom með flugi til Færeyja á laugardag reyndist smituð af kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Um er að ræða þrjú smit og þau fyrstu sem flokkast sem virk smit í Færeyjum síðan 22. apríl.

Fjölskyldan er nú í einangrun í húsi sem það hafði leigt fyrir ferðina. Yfir tuttugu eru nú í sóttkví eftir að hafa setið nálægt þeim í flugvélinni en Lars Fodgaard Møller, landlæknir Færeyja, segir þau ekki hafa smitast. Þeir sem sátu nálægt eigi þó að halda sig frá öðrum næstu fjórtán daga.

Í júlí greindist annar einstaklingur með kórónuveiruna við landamæraskimun á flugvellinum í Vágum. Um gamalt smit var að ræða í það skiptið og var einstaklingurinn flokkaður sem frískur tveimur dögum síðar.

Alls hefur 191 greinst með kórónuveiruna í Færeyjum frá upphafi faraldursins og hafa allir náð bata hingað til fyrir utan þau þrjú sem greindust um helgina.

Sýnatökur hafa gengið vel en alls hafa 28.927 sýni verið tekin frá því að faraldurinn hófst. Það samsvarar um 55 prósent af íbúafjölda eyjanna en 52.562 eru búsettir á eyjunum samkvæmt tölfræði hagstofunnar í Færeyjum.


Tengdar fréttir

Fyrsta smitið greint í Færeyjum frá því í apríl

Kórónuveiran er aftur komin á stjá í Færeyjum eftir langt hlé. Ferðalangur sem kom þangað í gær með flugi greindist með smit eftir að hafa farið í skimun á flugvellinum í Vágum. Gengið er út frá því að um gamalt smit sé að ræða



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×