Erlent

Telja rúss­neska njósnara beina spjótum sínum að bólu­efnis­rann­sóknum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrjótarnir eru taldi tilheyra hóp sem gengur meðal annars undir nafninu Cozy Bear og var sakaður um að stela tölvupóstum demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.
Þrjótarnir eru taldi tilheyra hóp sem gengur meðal annars undir nafninu Cozy Bear og var sakaður um að stela tölvupóstum demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Vísir/Getty

Tölvuþrjótar sem eru að öllum líkindum á vegum rússnesku leyniþjónustunnar beina nú spjótum sínum að stofnunum sem reyna að þróa bóluefni gegn nýju afbrigði kórónuveiru að mati leyniþjónustu Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada. Rússar hafna ásökununum.

Ekki kemur fram í sameiginlegu áliti vestrænu leyniþjónustunnar hvaða stofnanir hafi orðið fyrir barðinu á njósnurunum eða hvort að upplýsingum hafi verið stolið í tölvuinnbrotum. Rannsóknir á bóluefni hafi þó ekki verið hindraðar með njósnunum, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Þrjótarnir eru sagðir hafa notfært sér hugbúnaðargalla til þess að komast inn í tölvukerfi og notað spilliforrit til þess að hlaða skrám upp og niður. Þeir hafi einnig komist yfir auðkenni starfsmanna með svokölluðum vefveiðum (e. Phishing).

Breska netöryggisstofnunin (NCSC) segist telja „95%“ líkur á að APT29-hópurinn sem stóð að árásunum tengist rússnesku leyniþjónustunni. Sami hópur, sem einnig er þekktur undir nafninu Cozy Bear, var sakaður um aðild að þjófnaði á tölvupóstum bandaríska Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar árið 2016.

Afar líklegt er talið að þrjótarnir hafi reynt að komast yfir rannsóknargögn um bóluefni eða kórónuveiruna sjálfa.

Dmitrí Peskov, talsmaður Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, segir Rússa ekkert vita um hverjir hafa brotist inn í tölvukerfi lyfjafyrirtækja og rannsóknastofnana í Bretlandi.

„Við getum sagt eitt: Rússland hafði ekkert með þessar tilraunir að gera,“ fullyrðir Peskov.

Þrátt fyrir neitun Rússa telja sérfræðingar vel mögulegt að rússneskir njósnarar hafi komið nálægt tölvuinnbrotunum. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, gekk að sekt Rússa sem vísri þegar hann tjáði sig um leyniþjónustuálitið í dag.

„Það er algerlega óásættanlegt að rússnesk leyniþjónustan beiti sér gegn þeim sem vinna að því að berjast gegn kórónuveirufaraldrinum,“ sagði Raab.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×