Erlent

Ein látin og önnur í lífs­hættu eftir hnífs­tungu­á­rásir í Noregi

Sylvía Hall skrifar
Allt tiltækt lið lögreglu var sent á vettvang. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Allt tiltækt lið lögreglu var sent á vettvang. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty

Þrjár konur urðu fyrir hnífstunguárás í Sarpsborg í Viken-sýslu, um sjötíu kílómetra suður af Osló í gærkvöldi. Ein er látin og ein er í lífshættu samkvæmt norska miðlinum Verdens Gang.

Konurnar urðu fyrir árásinni á mismunandi stöðum í borginni en tilkynningar bárust með stuttu millibili. Rétt eftir klukkan tvö í nótt var ein konan úrskurðuð látin en hinn grunaði var handtekinn í miðbæ Sarpsborgar í gær eftir að eitt fórnarlamb bar kennsl á hann.

Sarpsborg Arbeiderblad hefur eftir eiginmanni einnar konunnar að hinn grunaði hafi bankað á dyrnar á heimili þeirra. Eiginmaðurinn fór til dyra og reyndi árásarmaðurinn að ráðast á hann. Þegar hann komst undan gekk hann inn og réðst á eiginkonu hans og skar hana í handlegg.

Vitni sem voru nálægt vettvangi heyrðu hjálparkall eins fórnarlambsins. Þurftu þau að sparka upp hurðinni á heimili konunnar til þess að komast inn en árásarmaðurinn hafði þá yfirgefið vettvang.

Á vef VG er haft eftir lögreglu að vitnisburður vitna er sagður renna stoðum undir þá kenningu þeirra að aðeins einn árásarmaður hafi verið að verki. Allt tiltækt lið lögreglu var sent á vettvang þegar fyrsta tilkynning barst og var fólk hvatt til þess að halda sig innandyra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×