Erlent

Ghislaine Maxwell lýsti yfir sakleysi sínu

Andri Eysteinsson skrifar
Epstein og Maxwell.
Epstein og Maxwell. Joe Schildhorn/Getty

Réttarhöldin yfir Ghislaine Maxwell, samverkakonu og fyrrverandi kærustu auðkýfingsins Jeffrey Epstein, munu hefjast í New York 12. júlí 2021. Þetta varð ljóst í réttarsal í New York í dag þar sem Maxwell lýsti yfir sakleysi sínu.

Ghislaine Maxwell var handtekin 2. júlí grunuð um að hafa lokkað ungar stúlkur til Epstein til þess að hann gæti beitt þær kynferðisofbeldi. Lögfræðingar hennar óskuðu eftir því að henn yrði veitt lausn gegn tryggingagjaldi þar sem að þeir töldu líkurnar á því að Maxwell myndi smitast af kórónuveirunni vera mjög miklar í fangelsinu.

Verði Maxwell sakfelld á hún yfir höfði sér allt að 35 ára fangelsi vegna brota sinna sem ákæruvaldið segir að hafi verið framin á árunum 1994-1997.

Lögfræðingateymi Maxwell hefur óskað eftir lausn gegn tryggingu og sögðu að engar líkur væru á því að hún myndi reyna að flýja undan réttvísinni ef hún yrði látin laus. Saksóknarar voru þó alls ekki á sama máli. Samkvæmt samningi sem Maxwell reyndi að fá samþykktan myndi hún láta af hendi vegabréf sín, einangra sig á heimili sínu í New York og vera undir GPS-eftirliti.

Ákæruvaldið kvaðst telja að réttarhöldin myndu ekki taka lengri tíma en tvær vikur og að ekki sé búist við því að bæta við ákærum á hendur Maxwell.

Lögfræðingar hennar áréttuðu fyrir dómi að skjólstæðingur þeirra væri ekki Jeffrey Epstein og sögðu að illa hafi verið farið með hana í umfjöllun um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.