Enski boltinn

Mourinho telur sig geta unnið titla með Spurs: „Hvað tók það Klopp langan tíma?“

Ísak Hallmundarson skrifar
Jose Mourinho er bjartsýnn.
Jose Mourinho er bjartsýnn. getty/Tottenham Hotspur FC

Jose Mourinho, þjálfari Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, er vongóður um að geta unnið titla með liðinu og telur félagið ekki þurfa að ráðast í stórar fjárfestingar í sumar.

Mourinho tók við Spurs í nóvember og er með þriggja ára samning við félagið. Hann hefur fulla trú á því að hann geti skilað félaginu sínum fyrsta bikar síðan liðið vann enska deildarbikarinn árið 2008.

„Hversu langan tíma tók það fyrir Klopp og Liverpool að vinna titil?“

„Fjögur ár, fjórar leiktíðir. Þeir keyptu einn besta markmann heims, einn besta varnarmann heims og svo framvegis og framvegis,“ sagði Portúgalinn.

„Ég hef einbeitinguna á þriggja ára samningi mínum. Ég trúi því að á þeim tíma munum við vinna titla. Ef við gerum það ekki og liðið vinnur titla eftir að ég er farinn, samgleðst ég þeim.“

„Ég vinn fyrir félagið, ekki sjálfan mig. Mögulega er ég á þeim stað á ferlinum að ég horfi minna á sjálfan mig og afrek mín og meira á klúbbinn. Ég er bjartsýnn því ég hef lagt vinnu í þetta frá fyrsta degi. Við munum gera einhverjar breytingar á leikmannahópnum en við þurfum ekki að eyða jafnmiklu og síðasta sumar,“ sagði Mourinho að lokum.

Tottenham komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrra þar sem liðið laut í lægra haldi fyrir Liverpool, en eins og stendur er liðið í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og ef það verður niðurstaðan væri það versti árangur liðsins síðan árið 2009, þegar Tottenham endaði í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×