Íslenski boltinn

Fjórtán ára dóttir Óskars Hrafns skoraði fyrir Gróttu í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emelía Óskarsdóttir í leiknum í Víkinni í gær.
Emelía Óskarsdóttir í leiknum í Víkinni í gær. mynd/eyjólfur garðarsson

Grótta vann 1-3 útisigur á Víkingi í Víkinni í Lengjudeild kvenna í gær. Hin fjórtán ára Emelía Óskarsdóttir gulltryggði sigur Seltirninga þegar hún skoraði þriðja mark þeirra níu mínútum fyrir leikslok.

Þetta var fyrsta mark Emelíu í meistaraflokki. Hún hefur tekið þátt í tveimur af fjórum leikjum Gróttu í Lengjudeildinni í sumar.

Emelía er dóttir Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara karlaliðs Breiðabliks. Áður en hann tók við Kópavogsliðinu stýrði Óskar Hrafn karlaliði Gróttu í tvö ár með frábærum árangri.

Sumarið 2018 endaði Grótta í 2. sæti 2. deildar og í fyrra kom liðið öllum á óvart með því að vinna Inkasso-deildina og tryggja sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni.

Sonur Óskars Hrafns, Orri Steinn, lék með Gróttu 2018 og 2019. Hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta meistaraflokksleik 2018, þá þrettán ára og 354 daga gamall. Í fyrra skoraði Orri eitt mark í tólf leikjum með Gróttu í Inkasso-deildinni. Síðasta haust samdi hann svo við danska stórliðið FC København.

Emelía byrjar líka snemma að skora, aðeins fjórtán ára og 125 daga gömul. Hinir markaskorarar Gróttu í gær eru líka kornungir. Helga Rakel Fjalarsdóttir, sem kom Gróttu yfir á 13. mínútu, er nítján ára. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jók María Lovísa Jónasdóttir muninn í 2-0. Hún er nýorðin sautján ára.

Grótta vann 2. deildina á síðasta tímabili og nýliðarnir hafa farið vel af stað í Lengjudeildinni í sumar. Seltirningar eru í 4. sæti með átta stig og eru enn ósigraðir. Næsti leikur Gróttu er gegn Tindastóli, liðinu í 2. sæti, fimmtudaginn 16. júlí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.