Íslenski boltinn

Hallbera: Ákveðin þægindi að vera komnar í bílstjórasætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallbera segir að Valskonur hafi ekki ætlað að slaka á í seinni hálfleiknum gegn Stjörnukonum í kvöld.
Hallbera segir að Valskonur hafi ekki ætlað að slaka á í seinni hálfleiknum gegn Stjörnukonum í kvöld. vísir/vilhelm

Hallbera Gísladóttir, fyrirliði Vals, var ekkert sérstaklega ánægð með spilamennsku Íslandsmeistaranna gegn Stjörnunni í kvöld, þrátt fyrir öruggan 3-0 sigur.

„Ef ég á að vera hreinskilin fannst mér við ekkert vera upp á okkar besta,“ sagði Hallbera í samtali við Vísi eftir leik. 

„Við gáfum ekki mörg færi á okkur og skoruðum þrjú mörk þannig að maður getur ekki verið ósáttur. En ég hefði viljað að við hefðum spilað boltanum aðeins betur á milli okkar en það var einhver þreyta í okkur,“ sagði Hallbera í samtali við Vísi eftir leik.

Fyrri hálfleikurinn var mun fjörugri en sá seinni þar sem bæði lið virtust gefa eftir. Hallbera segir að það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun að slaka á í seinni hálfleik.

„Við ætluðum bara að halda áfram. Við erum ekki þekktar fyrir að halda fengnum hlut þegar við komumst yfir. Við ætluðum okkur að setja fleiri mörk en það var einhver deyfð yfir okkur. Kannski erum við búnar að sóla okkur of mikið undanfarna daga,“ sagði Hallbera hlæjandi.

Eftir sigurinn í kvöld er Valur kominn með sex stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Staðan blekkir þó því Breiðablik, helsti keppninautur Vals um Íslandsmeistaratitilinn, hefur aðeins leikið þrjá leiki en Valur fimm.

„Maður veit ekki hvaða áhrif þetta hefur. En ég held að liðin sem lentu í sóttkví taki bara tveggja vikna æfingatörn og þau koma ekkert til baka eftir að hafa slakað á. En það eru ákveðin þægindi að vera komnar í bílstjórasætið,“ sagði Hallbera að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.