Innlent

Nátengd konunni sem kom frá Albaníu og voru þegar í sóttkví

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson, starfandi deildarstjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.
Rögnvaldur Ólafsson, starfandi deildarstjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Vísir/vilhelm

Þrjú ný innanlandssmit kórónuveirunnar sem greindust eftir hádegi í dag má rekja til konu sem kom hingað til lands frá Albaníu í síðustu viku. Þau sem greindust í dag eru nátengd konunni og voru þegar í sóttkví. Þetta kom fram í máli Rögnvalds Ólafssonar, starfandi deildartjóra hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Innanlandssmit eru í heildina orðin ellefu frá því að slakað var á ferðatakmörkunum fyrir hálfum mánuði. 440 manns eru í sóttkví og fjölgar nokkuð á milli daga eftir því sem smitrakningu vindur fram.

„Þessi smit sem komu upp í dag má rekja til tilfellis sem komu upp um daginn, konan sem kom frá Albaníu. Þetta er fólk sem er nátengt henni og var þegar í sóttkví sem var að bætast við núna,“ sagði Rögnvaldur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Í kvöldfréttum í gær kom fram að smitrakning vegna konunnar væri ekki jafnflókin og sú sem ráðast þurfti í vegna annarrar konu sem kom hingað til lands frá Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum. Rögnvaldur sagði að smitrakningu vegna fyrri konunnar væri nú lokið í bili.

„Þetta eru á bilinu 20 til 30 manns sem hafa bæst við inn í sóttkví núna út af þessu.“

Þá sagði hann allt á góðu róli varðandi hina hópsýkinguna. Allir væru í sóttkví sem þurftu þess eftir smitrakningu og engin ný smit hefðu bæst við.

Fjölmennir viðburðir eru á dagskrá víða um land yfir sumartímann. Þannig er til að mynda stórt knattspyrnumót barna haldið um helgina á Akureyri. Sóttvarnareglur kveða á um að grípa skuli til hólfaskiptingar á viðburðum sem þessum – en dugar það til?

„Við höfum vissar áhyggjur af þessu,“ sagði Rögnvaldur. „Þessi hólfaleið var farin til að það væri hægt að halda þessar hátíðir og mót sem margir voru búnir að leggja upp með að hafa. En eins og þetta er búið að þróast þá þjónar þetta ekki tilgangi sínum. Það er eitt að vera með hólfaskiptingu og svo ekkert þar fyrir utan.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×