Innlent

Þrjú innanlandssmit til viðbótar greindust eftir hádegi

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Skimað fyrir kórónuveirunni. 
Skimað fyrir kórónuveirunni.  Vísir/vilhelm

Þrjú greindust með kórónuveiruna eftir hádegi í dag. Fólkið hefur verið í samskiptum við smitaðan einstakling hér á landi á síðustu vikum og er því um að ræða þrjú innanlandssmit til viðbótar við þau átta sem staðfest hafa verið síðan 15. júní. 

Þetta staðfestir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítalans, í samtali við fréttastofu en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá nú á fimmta tímanum.

Runólfur segir að enginn af þeim þremur sem greindist eftir hádegi í dag sé alvarlega veikur. Öll séu þau þó í eftirliti. Inntur eftir því af hverju fólk virðist ekki vera að veikjast alvarlega af Covid-19 síðustu daga segir Runólfur að mest sé um að ræða ungt fólk, sem hefur fengið mun vægari einkenni en eldri sjúklingar. Það sé haldbærasta skýringin.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítalans.Stöð 2

Þá staðfestir Runólfur að smitin þrjú tengist smitum sem greint hefur verið frá síðustu daga en vildi ekki veita frekari upplýsingar þess efnis. Hann gerir ráð fyrir að fólkið sem greindist eftir hádegi hafi verið í sóttkví.

Runólfur segir það jafnframt vissulega áhyggjuefni að þrír greinist í dag. Það séu þó mjög margir í sóttkví og verið að prófa marga fyrir veirunni eftir því. Þá hafi enginn enn þurft inngrip vegna Covid-veikinda í öldu sýkinganna síðustu vikur.

Greint var frá því í dag að eins árs barn hefði greinst með Covid-19 hér á landi í gær. Barnið er einkennalaust. Móðir þess er kona sem kom frá útlöndum í síðustu viku og greindist með kórónuveiruna í fyrradag. Hún hafði þá verið hér á landi í tíu daga.

Virk smit á landinu voru tíu klukkan ellefu í morgun, samkvæmt tölum á Covid.is. Smitin þrjú sem nú er greint frá eru ekki inni í þeim tölum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.