Enski boltinn

Inn­kast­þjálfari Liver­pool rifjar upp þegar Klopp hringdi í hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool. VÍSIR/GETTY

Thomas Grönnemark er frá Danmörku. Hann sérhæfir sig í að þjálfa knattspyrnulið og -fólk í að  taka innköst og hefur m.a. starfað hjá Liverpool.

Á Linkedin-síðu sinni segir Thomas frá sögu sinni, af hverju hann fór í að einbeita sér að innköstum en hann var fyrst tólf ára er hann byrjaði að spá í innköstum.

34 ára gamall ákvað hann að byrja þjálfa innköst og hann segir að flestir hafi hlegið að sér en árið 2008 gaf hann út sína fyrstu bók um málefnið.

Hann segir að árið 2017 hafi hann verið svekktur. Hann hafi hjálpað mörgum liðum frá árinu 2004 en þau hafi einungis viljað vita hvað honum fannst um innköst. Ári síðar kom svo símtalið.

Jurgen Klopp hringdi í hann og spurði hann hvort að hann væri tilbúinn í að hjálpa liðinu að bæta innköstin sín. Sá þýski sagði að það væri einn af helstu veikleikum liðsins og Grönnemark var ekki lengi að segja já.

Grönnemark hjálpaði liðinu að fara úr 18. sæti í það fyrsta er litið var á hvernig liðunum í ensku úrvalsdeildinni tókst að halda boltanum eftir að þeir fengu innköst.

Á tímabilinu í ár hefur liðið svo skorað fjórtán mörk eftir innköst alls staðar á vellinum og Grönnemark endar á orðunum: „Eftir 30 ára bið unnum við ensku úrvalsdeildina. Aldrei gefast upp!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×