Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr sigri meistaranna í Eyjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elín Metta skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í Vestmannaeyjum í gær.
Elín Metta skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í Vestmannaeyjum í gær. vísir/hag

Íslandsmeistarar Vals gerðu góða ferð til Vestmannaeyja og unnu 1-3 sigur á ÍBV í fyrsta leik 4. umferðar Pepsi Max-deildar kvenna í gær.

Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp eitt. Hún hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og er markahæst í Pepsi Max-deildinni með sjö mörk.

Skagakonan Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði þriðja mark Vals eftir sendingu Elínar Mettu. Þetta var hennar fyrsta deildarmark fyrir félagið.

Valur hefur unnið alla fjóra leiki sína í Pepsi Max-deildinni með markatölunni 14-2. Valskonur eru þremur stigum á undan Blikum á toppi deildarinnar. Breiðablik á þó leik til góða.

Grace Hancock skoraði mark ÍBV í leiknum í gær. Hún minnkaði muninn í 1-2 á 56. mínútu.

Eyjakonur unnu fyrsta leik sinn í Pepsi Max-deildinni en hafa tapað síðustu þremur leikjum sínum.

Mörkin úr leiknum í Eyjum í gær má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Mörkin úr leik ÍBV og Vals

Stjarnan og Selfoss mætast í Garðabænum í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Stjarnan er með sex stig í 5. sæti deildarinnar. Bikarmeistarar Selfoss er í 6. sætinu með þrjú stig.

Þremur leikjum í 4. umferðinni var frestað vegna kórónuveirunnar. Þór/KA og Fylkir og Þróttur og Breiðablik áttu að mætast í gær og KR og FH í dag. Ekki eru komnar nýjar dagsetningar á leikina.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.