Þriðji sigurleikur Arsenal í röð þegar liðið fór illa með Norwich

Ísak Hallmundarson skrifar
Arteta á hliðarlínunni.
Arteta á hliðarlínunni. vísir/getty

Arsenal átti ekki í vandræðum með botnlið Norwich í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 4-0 á Emirates-vellinum.

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði fyrsta mark Arsenal á 33. mínútu og fjórum mínútum síðar var Granit Xhaka búinn að tvöfalda forystuna.

Aubameyang var svo aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann kom Arsenal í 3-0 og Cedric Sores skoraði síðan sitt fyrsta mark fyrir Arsenal á 81. mínútu leiksins og innsiglaði auðveldan 4-0 sigur fyrir Mikel Arteta og lærisveina. 

Á sama tíma vann Newcastle stórsigur á Bournemouth á útivelli, 4-1, en það hefur lítið gengið hjá Bournemouth undanfarið sem töpuðu þar með sínum fjórða leik í röð. 

Mörk Newcastle skoruðu þeir Dwight Gayle, Sean Longstaff, Miguel Almiron og Valentino Lazaro en Dan Gosling minnkaði muninn fyrir Bournemouth í uppbótartíma. Fyrir leikinn var Newcastle búið að skora minna en eitt mark að meðaltali í leik en í þessum leik komu fjögur. 

Newcastle eru í 13. sæti með 42 stig, fjórum stigum á eftir Arsenal í 7. sætinu, en aðeins sex stig skilja að liðin í 7. og 14. sæti og því ansi þéttur pakki í baráttunni um síðasta Evrópudeildarsætið. 

Bournemouth fóru niður í 19. sæti með tapinu þar sem markatala þeirra er nú orðin verri en hjá Aston Villa, en West Ham, Aston Villa og Bournemouth eru í 17. -19. sæti með 27 stig. Norwich er í neðsta sæti deildarinnar með 21 stig. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.