Gott gengi Man Utd heldur áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Man Utd fagna einu marka sinna í kvöld.
Leikmenn Man Utd fagna einu marka sinna í kvöld. EPA-EFE/Mike Hewitt

Manchester United heimsótti Brighton & Hove Albion í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Fór það svo að gestirnir unnu 3-0 sigur þökk sé mörkum Mason Greenwood og Bruno Fernandes.

Bruno Fernandes heldur áfram að gera það gott í rauðri treyju Manchester United. Átti hann skot í stöng áður en hinn 18 ára gamli Mason Greenwood kom gestunum yfir þegar rúmar fimmtán mínútur voru liðnar. Hann keyrði þá vörn Brighton, tók tvö skæri og þrumaði boltanum milli fóta Lewis Dunk og í netið.

Aftur liðu fimmtán mínútur áður en leikmenn Man Utd þöndu netmöskvana að nýju. Þar var að verki Bruno Fernandes með skoti utan af velli eftir sendingu Paul Pogba en Frakkinn hafði einnig lagt boltann á Bruno er hann skaut í stöng í upphafi leiks.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en í upphafi þess síðari bætti Bruno við öðru marki sínu og þriðja marki Man Utd. Aftur með góðu skoti en að þessu sinni lagði Greenwood upp á Portúgalann.

Það var loks þá sem heimamenn fóru að sækja í sig veðrið en David De Gea átti tvær mjög góðar markvörslur í marki gestanna. Er þetta annar leikurinn í röð sem hann heldur hreinu en hann var gagnrýndur fyrir mark Tottenham Hotspur í 1-1 jafntefli liðanna í fyrsta leiknum eftir að deildin fór aftur af stað.

Með sigrinum í kvöld hoppar Man Utd yfir Wolverhampton Wanderers og upp í 5. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Chelsea sem mætir West Ham United á morgun.

Brighton er á sama tíma í 15. sæti með 33 stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.