Enski boltinn

Solskjær mun skipta framherjunum út ef þeir vinna enga bikara fyrir hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær hefur komið Manchester United á rétta braut á ný
Ole Gunnar Solskjær hefur komið Manchester United á rétta braut á ný vísir/getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að það þurfi alltaf að vera samkeppni um stöður hjá félagi eins og Manchester United og er tilbúinn að skoða aðra framherja ef þeir sem hann hefur hjá félaginu bæta sig ekki.

United er komið í undanúrslit enska bikarsins eftir sigur á Norwich í framlengingu um helgina og í deildinni er liðið í 6. sæti deildarinnar, fimm stigum frá Meistaradeildarsæti.

„Þú þarft samkeppni um stöður hjá Manchester United. Ég var hérna í svo mörg ár sem framherji og Teddy Sheringham, Dwight Yorke, Ruud van Nistelrooy og Wayne Rooney komu hingað,“ sagði Norðmaðurinn við fjölmiðla.

„Ef þú telur þig svo heppinn að vera spila hvern leik og gera svo vel að við séum ekki að leita eftir öðrum leikmanni til að koma í þinn stað, þá ertu á röngum stað.“

Solskjær segir að ef framherjarnir bæta sig ekki - og skila inn úrslitum fyrir hann - þá þurfi hann að skoða aðra kosti í stöðunni.

„Við erum alltaf að reyna bæta okkur og ef við erum ekki að bæta okkur þá þurfum við að kíkja eitthvað annað því við viljum verða betri. Við erum of langt frá því þar sem við þurfum að vera og viljum vera,“ sagði Solskjær og átti þar með við að berjast um titilinn.

„Ég hef alltaf haft trú á framherjunum í þessu félagi. Mason, Marcus og Anthony. Þeir hafa axlað ábyrgð og ég er mjög ánægður með þá alla. Mér finnst þeir hafa bætt sig á þessari leiktíð en þeir geta svo mikið betur.“

„Ég er enn að bíða eftir að þeir springi út því það er hluti af þeirra leik sem þarf að bæta. Þeir vita að ég vil þeim allt það besta en þeir vita það einnig að ég þarf að taka ákvarðanir fyrir liðið og félagið,“ sagði sá norski.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.