Innlent

Losun frá flugi dróst saman um meira en þriðjung

Kjartan Kjartansson skrifar
Wow air varð gjaldþrota í mars í fyrra og dróst losun íslenskra flugrekenda verulega saman í kjölfarið. Mikil útþensla í fluggeiranum árin á undan þýðir þó að losunin er nú ennþá á pari við það sem gerðist árið 2015.
Wow air varð gjaldþrota í mars í fyrra og dróst losun íslenskra flugrekenda verulega saman í kjölfarið. Mikil útþensla í fluggeiranum árin á undan þýðir þó að losunin er nú ennþá á pari við það sem gerðist árið 2015. Vísir/Vilhelm

Meira en þriðjungs samdráttur varð í losun íslenskra flugrekenda á gróðurhúsalofttegunda á milli ára eftir fall Wow air. Losun frá flugi jókst svo mikið á tímabilinu á undan að hún er enn svipuð og árið 2015 þrátt fyrir brotthvarf eins stærsta flugrekandans.

Í uppgjöri íslenskra flugrekenda í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) kemur fram að losun þeirra dróst saman um 37,6% á milli áranna 2018 og 2019. Umhverfisstofnun rekur samdráttinn til „færri þátttakenda í kerfinu“. Wow air fór í þrot í mars í fyrra.

Losunin jókst aftur á móti mikið árin 2016 til 2018. Brotthvarf Wow air hefur þannig aðeins fært losun íslenskra flugrekenda aftur til ársins 2015 og er hún nú í 596.124 tonnum af koltvísýringsígildum.

Tölurnar segja þó ekki alla söguna um losun íslenskra flugrekenda á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Þær ná aðeins til losunar innan evrópska efnahagssvæðisins. Þannig er ótalin losun sem hlýst af flugferðum til Ameríku.

Lítilsháttar samdráttur var í losun þeirra sjö iðnfyrirtækja sem eiga aðild að viðskiptakerfinu á milli ára, um 2,57%. Heildarlosun þeirra nam rúmum 1,8 milljónum tonna koltvísýringsígilda árið 2019.

Þegar iðnaður og flugrekendur eru teknir saman dróst losun íslenskra aðila saman um rúm 10% frá 2018 til 2019. Á sama tíma dróst losun innan viðskiptakerfisins í heild saman um 8,7%. Þarf af varð 9% samdráttur í staðbundnum iðnaði en 1% aukning í losun frá flugsamgöngum.

Með viðskiptakerfinu með losunarheimildir fá rekstraraðilar úthlutað ákveðnum heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda. Losi þeir meira en sem þeim nemur þurfa þeir að greiða fyrir heimildirnar. Kerfinu er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að fækka losunarheimildunum árlega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.