Íslenski boltinn

Allt Fylkisliðið í sótt­kví og næstu tveimur leikjum frestað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik Fylkis fyrr á leiktíðinni.
Úr leik Fylkis fyrr á leiktíðinni. VÍSIR/DANÍEL

Kvennalið Fylkis í Pepsi Max-deild kvenna er komið í sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist í leikmannahóp liðsins um helgina.

Næstu tveimur leikjum liðsins; gegn Þór/KA og ÍBV hefur nú verið frestað. Fylkisstúlkur áttu að spila við Þór/KA á morgun og ÍBV 6. júlí en KSÍ hefur nú staðfest að þeir leikir fara ekki fram.

Þetta er annað smitið sem hefur verið staðfest í leikmannahópum Pepsi Max-deild kvenna en áður hafði greinst smit í leikmannahópi Breiðabliks.

Kolbrún Arnardóttir, formaður mfl. ráðs kvenna hjá Fylki, sagði í samtali við Vísi að leikmenn liðsins væru á leið í skimun í dag.

Hún bætti einnig við að umræddur leikmaður hafi ekki tekið þátt í leiknum gegn Þrótti í vikunni svo leikmenn Þróttar þurfa ekki að fara í sóttkví.

KSÍ hefur því alls frestað sex leikjum vegna kórónuveirunnar í Pepsi Max-deild kvenna.

Fylkir hafði byrjað tímabilið vel en liðið var með sjö stig eftir fyrstu tvo leikina. Óvíst er hvenær næsti leikur liðsins fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×