Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Grótta 2-0 | Fyrstu stig Fylkis komu gegn nýliðunum

Ísak Hallmundarson skrifar
Valdimar Þór sá til þess að Fylkir nældi í sinn fyrsta sigur í sumar.
Valdimar Þór sá til þess að Fylkir nældi í sinn fyrsta sigur í sumar. Vísir/Vilhelm

Fylkir eru komnir á blað í Pepsi Max deild karla eftir 2-0 sigur á nýliðum Gróttu. Seltirningar eiga enn eftir að skora mark í efstu deild og fengu gullið tækifæri til þess í kvöld en þeir brenndu af vítaspyrnu í síðari hálfleik.

Það voru gestirnir í Gróttu sem byrjuðu leikinn betur og náðu að halda boltanum vel í upphafi leiks. Þeir náðu ekki að skapa mikið af marktækifærum en fengu aragrúa af hornspyrnum og komust oft í vænlega stöðu en virtust skorta kjark í að skjóta á markið. 

Leikurinn jafnaðist hægt og rólega og Fylkismenn fengu sín tækifæri fram á við en bæði lið gerðu lítið af mistökum varnarlega og erfitt reyndist að finna glufur til að skora. 

Staðan var 0-0 í hálfleik en það voru heldur betur vond tíðindi sem áttu sér stað í upphafi seinni hálfleiks.

Þá var Helgi Valur Daníelsson - leikmaður Fylkis - borinn af velli eftir harkalegt samstuð við Bjarka Leósson. Ólíklegt er að hann spili meira á þessari leiktíð.

Helgi Valur var borinn af velli í síðari hálfleik.Vísir/Vilhelm

Næstu mínúturnar sóttu Fylkismenn meira og uppskáru að lokum vítaspyrnu þegar Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Gróttu, braut klaufalega á Nikulási Val leikmanni Fylkis. Boltinn var skoppandi inn í teig eftir hornspyrnu og Hákon ætlaði að teygja sig í boltann yfir Nikulás.

Valdimar Þór Ingimundarson fór á punktinn og skoraði framhjá Hákoni sem fór þó í rétt horn en spyrnan föst og örugg í vinstra hornið.

Aðeins nokkrum andartökum síðar fékk Grótta dauðafæri til að jafna en Pétur Theodór hitti ekki boltann nánast á marklínu eftir frábæra sendingu frá Óliver. Millimetraspursmál.

Gróttumenn ógnuðu næstu mínútur en á 73. mínútu komst Valdimar inn í sendingu í öftustu línu Gróttu, keyrði inn í teig og skoraði örugglega í bláhornið fjær. 2-0 fyrir Fylki og róðurinn orðinn þungur fyrir Seltirninga.

Þetta var þó ekki búið en á 87. mínútu fékk Grótta vítaspyrnu þegar Ásgeir Eyþórsson gerðist brotlegur inn í teig eftir hornspyrnu. Á punktinn fór Óliver Dagur en honum tókst ekki að koma boltanum framhjá Aroni Snæ sem varði frekar slaka vítaspyrnu Ólivers.

Þetta hefði geta orðið spennandi leikur í lokin en sjö mínútum var bætt við. Fylkismenn voru þó líklegri til að skora þriðja markið heldur en Grótta að minnka muninn í uppbótartíma. 

Lokatölur úr Árbænum 2-0 fyrir heimamönnum.

Af hverju vann Fylkir?

Þeir nýttu sín færi, ólíkt Gróttu. Það má kannski setja þetta á reynsluleysi Gróttu sem börðust hetjulega en fengu síðan á sig klaufalegt víti. Gæði Fylkis fram á við til að klára færi eru einfaldlega meiri. 

Hverjir stóðu upp úr?

Margir frískir. Valdimar Þór kláraði auðvitað leikinn fyrir Fylki með einstaklingsframtaki í öðru markinu og skoraði auðvitað einnig úr vítinu í fyrsta markinu. Aron Snær varði víti til að koma í veg fyrir spennu í lokin. Ásgeir Eyþórs átti nokkrar frábærar tæklingar í fyrri hálfleik og Djair Parfitt-Williams var ógnandi fram á við.

Kristófer Orri Pétursson var mesta ógnin fram á við hjá Gróttu og Axel Freyr átti flottan leik. Annars var mikill hugur í öllu Gróttu-liðinu sem barðist fram í síðasta blóðdropa.

Hvað gekk illa?

Gekk illa hjá Gróttu að finna skotið, komust í góðar stöður en náðu sjaldan skotinu. Síðan var auðvitað klaufalegt vítið sem Grótta fékk á sig og Óttar klúðraði vítinu sem Grótta fékk en hann hefði getað sett pressu á Fylki undir lokin með því að skora. 

Hvað gerist næst?

Grótta fær HK í heimsókn á Nesið þann 4. júlí og Fylkir fer og mætir Fjölni í Grafarvogi.

Ólafur (til vinstri) og Arnar, þjálfarar Fylkis, á hliðarlínunni í kvöld. vísir/vilhelm

Óli Stígs: Gáfu okkur heldur betur leik

,,Við erum alsælir, hörkuleikur, þeir gáfu okkur heldur betur leik og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu. Sýndum mikinn karakter í seinni hálfleik að rífa okkur í gang. Svo voru þetta auðvitað þrjú stig fyrir Helga,“ sagði Ólafur Stígsson, annar þjálfara Fylkis, eftir leik.

Helgi Valur Daníelsson meiddist illa í leiknum og er talið að hann gæti verið sköflungsbrotinn.

,,Þetta er bara alveg skelfilegt og miðað við fréttirnar virðist hann vera brotinn og bara hræðilegt að missa hann. Þetta er bara tækling sem þeir fara í, svona gerist stundum, þetta var ekkert viljaverk eða neitt þannig. En bara hræðilegt. Hann verður væntanlega frá í langan tíma en vonandi kemur hann sterkur til baka,“ sagði Óli um Helga Val.

Óli segist hafa átt von á að þetta yrði hörkuleikur.

,,Við vorum alveg undirbúnir undir baráttu því að Grótta er bara með hörkulið og gáfu sig alveg 100% í þetta en við náðum að sigla þessu í gegn þannig við erum alsælir.

Aron ver víti fyrir okkur sem er gríðarlega mikilvægt í stöðunni 2-0, annars hefðu þeir fengið aukabúst þarna síðustu mínúturnar.“

Gústi á hliðarlínunni í kvöld.vísir/vilhelm

Gústi Gylfa: Okkur greinilega fyrirmunað að skora

Ágúst Gylfason þjálfari Gróttu var að vonum svekktur með niðurstöðu leiksins en lið hans barðist hetjulega í kvöld.

,,Það má með sanni segja að við áttum skilið eitthvað úr þessum leik. Gríðarlega ánægður með fyrri hálfleik en okkur er greinilega fyrirmunað að skora. Við hefðum kannski getað verið búnir að klára þetta í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekki alveg eins góður en við fáum nokkur góð færi til að skora. Fáum svo víti á okkur og þeir komast yfir og bæta svo öðru marki við, þá var þetta á brattann að sækja fyrir okkur. Þetta var góður fyrri hálfleikur en við vorum ekki nógu góðir í seinni,‘‘ sagði Gústi.

Grótta fékk fjöldan allan af tækifærum og komust oft í góða stöðu en áttu erfitt með að ná skoti á markið.

,,Það er eitthvað sem háir okkur varðandi að skora, mögulega þor, kannski reynsluleysi, við erum að reyna að grafa ofan í það. Búnir að spila þrjá leiki í deildinni og ekki skorað mark, við þurfum að gera þetta betur kannski á æfingasvæðinu og vorum frekar værukærir fannst mér í færunum og tók okkur langan tíma að ,,slútta‘‘, en við finnum lausn á þessu fyrir næstu leiki.

Ég vil skila batakveðju til Helga Vals, leiðinlegt að heyra með hann og vonandi endar þetta ekki ferilinn hans og hann kemur sterkur til baka.‘‘

En getur Gústi tekið eitthvað jákvætt út úr þessum leik fyrir framhaldið?

,,Ég veit það ekki, við töpuðum leiknum og skoruðum ekki mark og það er það sem maður skilur eftir í þessum leik. Við erum ekki komnir með neinn punkt á töfluna og það er það sem svíður. Við þurfum að fara að hala inn stigum og með þessari frammistöðu jú þá munum við gera það, sérstaklega í fyrri hálfleik,‘‘ sagði hann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira