Íslenski boltinn

Kæra framkvæmd leiks í 1.umferð Lengjudeildarinnar og vilja spila leikinn aftur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Leiknismenn unnu 2.deildina á síðustu leiktíð.
Leiknismenn unnu 2.deildina á síðustu leiktíð. Austurfréttir

Leiknismenn frá Fáskrúðsfirði hafa lagt fram kæru og vilja að frumraun liðsins í Lengjudeildinni verði endurtekin þar sem þeir telja framkvæmd leiksins í 1.umferð deildarinnar gegn Fram ólöglega.

Jesus Meneses, varnarmaður Leiknis F., fékk að líta rauða spjaldið þegar skammt var eftir af leiknum eftir samskipti sín við aðstoðardómara sem taldi Meneses hafa gefið sér fingurinn. Myndir af atvikinu sanna hins vegar að spænski varnarmaðurinn lyftir vísifingri í átt að aðstoðardómaranum.

Magnús Ásgrímsson, formaður Fáskrúðsfirðinga, sagði frá því í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun að búið sé að leggja fram kæru til KSÍ þar sem framkvæmd leiksins er kærð.

Í máli Magnúsar kemur fram að Leiknismenn hafi upphaflega sent KSÍ greinargerð í kjölfar rauða spjaldsins en erindi þeirra hafi ekki verið svarað. Ekki er hægt að áfrýja rauðum spjöldum í íslenskum fótbolta og fara Fáskrúðsfirðingar því þá leið að kæra framkvæmd leiksins.

Leiknum lauk með 3-0 sigri Fram en þegar rauða spjaldið fór á loft á 71.mínútu leiksins var staðan orðin 3-0.

Næsti leikur Leiknis F. er á morgun þar sem þeir eiga að fá Þórsara í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina. Þó verður að teljast ólíklegt að sá leikur fari fram í kjölfar frétta af kórónuveirusmiti í liði Stjörnunnar þar sem Stjarnan mætti Leikni F. í Mjólkurbikarnum síðastliðinn miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×